Ágúst hagstæður Norðmönnum

Ágúst var hagstæður útflutningi Norðmanna á sjávarafurðum. Útflutningurinn þá nam 165.000 tonnum að verðmæti 102 milljarðar íslenskra króna. Magnið er 2% meira en í ágúst í fyrra og verðmætin hafa vaxið um 7%. Það sem af er ári nemur útflutningur sjávarafurða frá Noregi 1,6 milljónum tonna að verðmæti 827 milljörðum íslenskra króna. Það er aukning um 6% í magni og 8% í verðmætum.

Það er laxinn sem dregur vagninn hjá Norðmönnum. Útflutningur á honum jókst um 7% í ágúst miðað við sama mánuð í fyrra og það sem af er árinu er hann orðinn meiri en á sama tíma í fyrra. Í ágúst fóru utan 90.700 tonn af laxi og það sem af er árinu er magnið komið upp í 614.400 tonn. Aukningin til loka ágúst er 1% í magni en verðmætið hefur hækkað um 11%.

Aukning hefur orðið á útflutningi á ferskum og frystum þorski um 21% í ágúst. Hlutfallslega mest er aukningin í saltfiski, 16% og 15% í frystum þorski. Það sem af er ári hafa Norðmenn flutt utan 58.200 tonn af ferskum þorski, sem er aukning um 9%. Af frystum þorski hafa 54.200 tonn farið utan, sem er 4% aukning.

Á þessu ári hafa Norðmenn selt 55.000 tonn af þurrkuðum saltfiski, sem er aukning um 19%. Af blautverkuðum saltfiski hafa farið utan 22.300 tonn, sem er 5% samdráttur. Þurrkaði fiskurinn fer mest til Portúgal og Brasilíu, en sá blautverkaði til Portúgal og Ítalíu. Sala á skreið hefur dregist saman.

Útflutningur á síld frá Noregi hefur aukist töluvert á árinu. Nú hafa farið utan 166.900 tonn, sem er aukning um 23%, en engu að síður hefur verðmæti útflutningsins lækkað um 1%. Útflutningur á makríl nemur nú 108.000 tonnum, sem er 3% minna en á sama tíma í fyrra, en verðmætið hefur farið upp um 7%.

 

 

Tengdar færslur

thumbnail
hover

Dagbjartur Einarsson látinn

Dagbjartur Garðar Einarsson, fyrrverandi útgerðarmaður, skipstjóri og forstjóri Fiskaness hf., lést á hjúkrunarheimilinu Víðihlí...

thumbnail
hover

Marel kynnir afkomuna

Marel boðar til kynningarfundar með markaðsaðilum og fjárfestum, þar sem Árni Oddur Þórðarson, forstjóri og Linda Jónsdóttir fj...

thumbnail
hover

Valdimar farinn af stað á ný

Valdimar GK 195 sem í eigu Þorbjarnar hf , er loksins farinn af stað á ný eftir miklar endurbætur . Valdimar GK landaði í lok maí ...