-->

Codland að hefja kollagenframleiðslu

Codland kynning - EÓP„Codland hefur þróast mikið frá því þetta var bara hugmynd með kennitölu. Nú er þetta komið mun lengra, ákveðin stefna hefur verið mótuð og sviðið þrengt. Við erum enn í miklu samstarfi við fjölmarga aðila, því ótrúlegt er hve margir eru að fullvinna fisk og fiskafurðir allt í kringum landið. Nota þær afurðir sem hingað til hafa ekki eða lítið verið nýttar. Næsta sumar byrjum við að vinna kollgen úr fiskroði í samstarfi við Spánverja. Við erum þegar byrjuð að þróa hrálýsi og mjöl úr fiskslógi í Haustaki úti á Reykjanesi. Framhaldið verður svo í rannsóknum og þróun á vörum tengdum þessum afurðum. Við erum jafnframt í samstarfi við ýmsa aðra um fleiri verkefni.“

Þetta segir Erla Ósk Pétursdóttir, framkvæmdastjóri Codland í samtali við kvotinn.is. Codland er fyrirtæki stofnað til fullvinnslu á því sem áður var kallað aukaafurðir eða jafnvel úrgangur. Codland er í eigu sjávarútvegsfyrirtækjanna Vísis og Þorbjarnar í Grindavík.
„Mér skilst að roðið sé í raun síðasta afurðin úr fiskinum, sem við flytjum út óunna. Allt annað er unnið að meira eða minna leyti hér heima,“ segir Erla Ósk. „Hvað varðar kollagenverksmiðjuna erum við komin í samstarf ytra. Við kaupum vél í verksmiðju með samstarfsaðilum okkar úti a Spáni,   lærum á framleiðsluna og kynnumst mörkuðunum. Við stefnum á að flytja vélina heim eftir 1-2 ár og setja upp verksmiðju hér heima. Mikið fellur til af roði hér á Íslandi og nú er það að mestu leyti fryst og selt utan óunnið, en nú ætlum við semsagt að vinna úr því sjálf, þessa eftirsóttu afurð sem kollagen er á mörkuðum fyrir snyrti- og heilsuvörur.“
Hvað með markaðssetninguna, er hún ekkert vandamál?
„Eins og er er góður hrávörumarkaður fyrir kollagen og við byrjum á þeim markaði en síðan er stefnan sett á neytendamarkaðinn, efni til inntöku eða krem. Í þeim efnum er allt opið. Kollagen er öflugasta byggingarprótein líkamans og dregur úr hrukkumyndun og er meðal annars notið í botoxmeðferðir og annað slíkt. Heilsu- og snyrtivörugeirinn er mjög stór og stækkar stöðugt því allir vilja eldast sem hægast. Markaðurinn er því vissulega til staðar og kollagen unnið úr fiski úr ómenguðum sjó á norðurslóðum er líklegt til að njóta forskots á honum.
Nú er kollagen unnið að mestu leyti úr nautgripum og svínum. Þá er gott að geta boðið hreina afurð úr Atlantshafinu en tengist ekki einhverju kúa- eða svínabúi úti i heimi. Eins eru margir sem af trúarlegum ástæðum vilja ekki nota afurðir úr svínum. Þá virðast viðbótarafurðir af þessu tagi, kollagen, ensím og ýmsir aðrir hvatar úr fiski úr köldum sjó hafa meiri virkni en úr búfénaði. Fiskurinn lifir við lágt hitastig en þegar afurðirnar koma í hærra hitastig eykst virkni þeirra, en þær geta þá líka virkað við lægra hitastig en efni úr öðrum tegundum með heitt blóð,“ segir Erla Ósk.
Það er semsagt verið að auka verðmæti og skjóta fleiri stoðum undir sjávarútveginn og tækifærin virðast vissulega vera fyrir hendi.
„Við erum með þessu komin með sjávarútveginn í sívaxandi mæli inn á líftæknisviðið og það þykir okkur skemmtileg viðbót við hinn hefðbundna sjávarútveg, sem hefur skilað okkur svo miklu. Nú erum við að auka verðmæti afurðanna enn frekar með því að nýta þær betur og finna hvernig við berum sem mest út býtum. Líftækniiðnaður í sjávarútvegi er hrein viðbót og nú þegar hefur mikill árangur náðst. Í roðinu má til dæmis nefna fyrirtækið Kerecis á Ísafirði sem er að gera frábæra hluti með framleiðslu plásturs úr roði. Það er margt í gangi en markaðurinn úti í heimi er svo stór að tækifærin eru mörg.
Með því að nýta viðbótarhráefni af fleiri fiskum í vörur sem þegar er búið að þróa og markaðssetja fyrir hendi getum við tvöfaldað verðmæti þess fisk sem dreginn er úr sjó. Og það er hægt að gera enn betur með því að þróa fleiri vörur og fara enn lengra inn á markaðinn, beint til neytenda.
Það má sjá það fyrir sér að allt í kringum landið muni verða klasar sem vinna úr þessu viðbótarhráefni, því slík framleiðsla þarf að vera í nálægð við hafnirnar og fiskvinnsluna, en þannig er hægt að nota hið frábæra flutninganet sem þegar er búið að byggja upp í kringum sjávarútveginn. Síðan sjáum við fyrir okkur miðstöð frekari úrvinnslu og þróunar í Grindavík.  Draumurinn er að eftir tíu ár verði framleiddar neytendavörur úr öllu hráefni sem á land kemur. Þannig geta skapast aukin atvinnutækifæri úti á landi, meðal annars fyrir ungt vel menntað fólk, sem annars fengi kannski ekki störf við sitt hæfi í heimabyggðinni eða nálægð hennar.“
Það er því miður þannig að umræða um sjávarútveg hefur undanfarin ár snúist mest um deilur um kvótann og hvernig beri að innheimta veiðigjöld og í hvaða mæli. Minna hefur farið fyrir því jákvæða sem er að gerast í útveginum og þeim miklu tækifærum sem enn felast í þeirri fullnýtingu, sem Coldland vinnur nú að. Hvernig horfir þessi staðreynd við Erlu Ósk.
„Nú hefur Sjávarklasinn undanfarin misseri verið að kynna sjávarútveginn fyrir grunnskólabörnum. Í þeirri fræðslu er einmitt bent á hina fjölmörgu framtíðarmöguleika sem felast í sjávarútveginum í dag. Hann er ekki bara vinnsla og veiðar heldur svo miklu meira. Fiskurinn í hafinu umhverfis landið er okkar helsta auðlind og okkur ber skylda til þess að leita allra leiða til að finna út hvernig við fáum sem mest fyrir afurðirnar úr henni. Þá er það spurningin hvort leggja eigi áherslu á mikla skattheimtu um leið og fiskurinn kemur á land, eða skapa svigrúm til aukinnar verðmæta- og atvinnusköpunar, sem á endanum hlýtur að skila sér best fyrir þjóðarbúið.  Það er dýrt að þróa nýjar dýrar vörur úr afurðum sem lítið hafa verið nýttar. Til þess þar mikla fjárfestingu, en hún skilar sér til baka og gott betur í enn meiri útflutningstekjum en ella. Nauðsynlegt er að gera fyrirtækjunum kleift að standa þannig að verki  þetta sé mögulegt.
Gangi allt eftir sem fyrir dyrum stendur, stefnir í að viðbótarafurðirnar eins og við köllum þær, eigi eftir að skila okkur meiri tekjum en hinn hefðbundni fiskur, eða maturinn sjálfur. Gernýting af þessu tagi styrkir enn frekar ímynd okkar sem ábyrg fiskveiðiþjóð, en þar teljum við okkur nú þegar standa fremst í flokki,“ segir Erla Ósk Pétursdóttir