-->

Kjarasamningar stöðva alla sókn á erlend mið

„Íslenskir kjarasamningar stöðva alla alla sókn íslenskra fiskiskipa í lögsögu annarra ríkja. Allar þjóðir sem stunda veiðar utan eigin landhelgi verða að kaupa veiðileyfi af viðkomandi strandþjóð. Íslenskir kjarasamningar gera ekki ráð fyrir þessu. Þess vegna eru engin íslensk skip að veiða í lögsögu annarra ríkja með því að leigja þar heimildir,“ segir Guðmundur Kristjánsson, útgerðarmaður í Brimi hf. Í samtali við kvotinn.is

„Því er kannski kominn sá tími að Samtök atvinnulífsins og stéttarfélögin setjist niður til að komast að niðurstöðu um það hvort eitthvert vit er í því að veiða í lögsögu annarra þjóða eða ekki. Þá verður  að gera sér kjarasamninga um þær veiðar. Það þýðir ekki að sjómenn eigi að taka þátt í kvótakaupum. Það eiga þeir ekki að gera. Spurningin snýst að menn setjist niður og reikni út hvort það sé arðbært bæði fyrir útgerð og sjómenn að veiða á erlendum miðum. Allir vita að til þess þarf ýmsu að kosta eins og olíu og veiðarfæri, veiðileyfi og annað. Sjómenn þurfa að sjá sér hag í því að vinna hjá útgerðinni og útgerðin að sjá sér hag í því að fjárfesta í skipum til að veiða í lögsögu annarra ríkja. Ef ekki er rekstrargrundvöllur fyrir þeirri sókn, þá nær það ekki lengra. Það er ekki hægt. Ef sjómönnum finnast þeir með alltof lág laun, ráða þeir sig einfaldlega ekki til slíkra veiða.“
Guðmundur segir að það vanti heilbrigða umræðu um það hvort Íslendingar ætla að eiga fiskiskipaflota, sem getur stundað veiðar í norðurhöfum. Samtök sjómanna verði að taka þátt í því að setjast niður og ræða þessa hluti. Það þurfi að hætta þessu bulli að sjómenn séu að borga allan útgerðarkostnað. Þetta byggist á hlutaskiptakjörum og  ákveðnar tekjur komi á hvern fisk og þær skiptist á milli útgerðar og sjómanna eftir ákveðnum reglum. „Um það má auðvitað endursemja eins og allt annað í samfélaginu, en það verður að gera á jafnréttisgrundvelli.  Ef Íslendingar ætla að vera með stór skip í norðurhöfum verða menn að fara yfir kaup og kjör og hvernig á að skipta tekjunum af aflanum.“
Eru þá ekki miklir möguleikar í því fólgnir að sækja inn í lögsögu annarra þjóða?
„Ég veit það ekki, en alla vega er um fjölmarga fiskistofna að ræða og fjölmargar þjóðir eru að gera þetta. Það þarf fyrst og fremst að vera arðbært til þess að í því felist einhverjir möguleikar. Menn fara ekki alla leið í Barentshafið til veiða nema á góðu skipi og með vissu um að dæmið gangi upp.
Veiðar þar á þorski hafa verið að ganga upp, en þetta hefur verið að minnka ár frá ári og allir sem tengjast íslenskri útgerð sjá að stórum skipum er að fækka mikið á Íslandi. Við erum ekkert að halda í við aðrar þjóðir. Það eru engin skip í smíðum og nýjustu skipin eru keypt til landsins 10 ára gömul. Nú virðist vera um það samstaða á Ísandi að gera ekki neitt og það skilar auðvitað hvorki árangri né framförum.
Menn virðast alltaf gleyma því að það þarf alvöru skip til að veiða fisk á norðurslóðum. Það er bara rifist um kvótann en enginn ræðir þessa staðreynd,“ segir Guðmundur Kristjánsson.
Á myndinni eru Páll Rúnarsson, skipstjóri á Brimnesi, Gunnar Gunnarsson, sölumaður og Guðmundur Kristjánsson, útgerðarmaður, við löndun úr Brimnesinu.