-->

Vinnuskóli um sjávarútveg hjá Codland

Íslenski sjávarklasinn verður með vinnuskóla í Grindavík um sjávarútveginn dagana 12. til 15. ágúst frá 8:30 til 12:30 fyrir hádegi. Nemendum sem fæddir eru árin 1998 og 1999 gefst kostur á að taka þátt í því starfi sem verður í boði. Nemendur fá greitt skv. launatöflu unglingavinnunnar í Grindavík. Skráning fer fram á Codland.is/vinnuskolinn og stendur til 7. ágúst.

Codland vinnuskólinn hefur það að markmiði að efla áhuga á sjávarútveginum og sýna nemendum þau víðfeðmu áhrif sem hann hefur á okkar samfélag. Nemendur fá fræðslu um sjávarútveginn, fara í vettvangsferðir og vinna verkefni sem tengjast nýsköpun sjávariðnaðarins.
Í skólanum fá nemendur fræðslu um íslenskan sjávarútveg, fara í vettvangsferðir í fiskvinnslur og skip og fara í starfskynningar. Þeir kynnast starfsemi frumkvöðla, skoða fullvinnsluverksmiðjuna Codland og fá verkefni í nýsköpun. Að skólanum loknum fá nemendur viðkenningarskjal afhent.
Íslenski sjávarklasinn er samstarfsvettvangur fyrirtækja í haftengdri starfsemi á Íslandi sem hefur það að markmiði að auka virði þeirra fyrirtækja sem starfa í klasanum. Sjávarklasinn var stofnaður árið 2011 á grundvelli svokallaðrar klasafræði og eru samstarfsfyrirtæki nú á fimmta tug.
Codland er fullvinnslufyrirtæki innan klasans sem sérhæfir sig í hámarksnýtingu á hráefnum þorsks. Það er í eigu sjávarútvegsfyrirtækjanna Vísis og Þorbjarnar í Grindavík, sem saman reka einnig fiskþurrkunina haustak.
Á meðfylgjandi mynd er verið að vinna við fiskþurrkun í Haustaki.