12 ára á frystitogara

„Við fylltum skipið og fórum létt með það,“ segir Andri Fannar Einarsson er 12 ára. Hann fór í 9 daga túr með pabba sínum, Einari Hannes Harðarsyni á frystitogaranum Hrafni Sveinbjarnarsyni. Þeir komu í land í heimahöfninni Grindavík á mánudag með fullt skip af frystum makríl.
Andri Fannar„Við vorum að veiða makríl. Það gekk bara vel en það kom af og til svolítið af síld með. Við vorum að veiða rétt fyrir utan Grindavík og líka hjá Snæfellsjökli,“ segir Andri Fannar. Hann var ekki í fullu starfi um borð, „en ég fór af og til niður og hjálpaði til.“ Hann segir að sér hafi bara litist vel á þetta og það hafi ekki verið erfitt. Hann hafi bara fengið einhver verkefni og klárað þau. „Ég var bara í því að flokka fisk eða ýta pönnunum á sinn stað og þá fara þær aftur þar sem fiskurinn kemur í þær.“
Hann var sjóveikur fyrsta daginn og síðan síðasta kvöldið þegar þeir voru á keyrslu til heimahafnar, en ætlar hann aftur? „Það gæti verið næsta sumar.“ Heldur þú að þú verðir sjómaður eins og pabbi þinn? „Nei. Ég er alveg ákveðinn í því. Ég hugsa að ég fari bara að læra mikið og mennti mig fyrir eitthvað annað en sjómennsku.“
Andri Fannar segir að lífið um borð hafi bara verið fínt. Góður matur og hann hafi fengið að fá sér það sem hann vildi, þegar hann var svangur. Honum fannst reyndar svolítið mikið um kjöt í matinn, en samt voru hamborgarar einu sinni og líka pítsa.
Einar, pabbi Andra Fannars, hefur verið í mörg ár um borð í Hrafni Sveinbjarnarsyni, en hann er jafnframt formaður Sjómanna- og vélstjórafélags Grindavíkur. Hann segir að strákurinn hafi bara staðið sig ágætlega. Hann hafi reyndar verið sjóveikur fyrsta daginn en hrist það af sér. Honum hafi svo ekki litist vel á hamaganginn og hávaðann á vinnsludekkinu til að byrja með, en hafi síðan komist yfir það.
Andri Fannar hafði 24.000 krónur upp úr sínum fyrsta túr á sjó. Um borð í þessum túr voru líka tveir ungir hásetar, 17 ára gamlir, og segir pabbi Andra, að þegar hann hafi séð hvað þeir hafi haft fyrir túrinn, hafi hann velt því fyrir sér hvort ekki kæmi til greina að vera á sjó á sumrin með skóla, þegar hann yrði eldri.

Makrílnum landað.

Makrílnum landað.

 

Attachments

Tengdar færslur

thumbnail
hover

Frost, funi og allt þar á...

Starfsmenn Hafnareyrar frysta og sjóða, landa fiski og skipa út fiski, smíða úr tré og járni og sinna ótal mörgu öðru sem upp m...

thumbnail
hover

Merkingar á þorski hafnar á ný

Nú í marsmánuði hóf Hafrannsóknastofnun merkingar á þorski á ný eftir nokkurt hlé. Merktir voru 1800 þorskar um borð í r/s Ár...

thumbnail
hover

Binni tvítugur (í starfi)

Samstarfsfólk á skrifstofu Vinnslustöðvarinnar bar í síðustu viku þessa líka fínu súkkulaðiköku á borð í tilefni af tvítugs...