-->

4fish hlýtur framúrstefnuverðlaun Sjávarútvegsráðstefnunnar

Unnsteinn Guðmundsson frá 4fish ehf. Grundarfirði hlaut í dag verðlaun Sjávarútvegsráðstefnunnar fyrir framúrstefnuhugmynd árið 2014. Hugmyndin felst í því að skera sporð af bolfiski fyrir flökun og samkvæmt upplýsingum í umsókn þá hefur þessi litla aðgerð víðtæk og mikil áhrif á gæði flökunar í flökunarvélum.
Í verðlaun eru 500.000 þúsund krónur og Svifaldan, sem er verðlaunagripur.
Hugmyndin sem hefur verið framkvæmd og prófuð í 7 mánuði hjá fiskvinnslu G.Run h/f í Grundarfirði með góðum árangri felst í því að sporðskera fisk fyrir flökun og leysir þannig ákveðið vandamál sem þekkt er í öllum gerðum flökunarvéla.
Vélin getur skorið 500 gr til 18 kg fisk í sömu aðgerðinni án þess að stilla þurfi á milli og tekur yfir allan þann stærðarskala sem þörf er á fyrir framleiddar flökunarvélar, einföld mæling á sporðskurðarvél tryggir hámarks nýtingu (lámarks tap) óháð stærð fisks.
Í tilraunarvinnslu hefur þessi aðgerð aukið verðmætasköpun í vinnslu umtalsvert, lægra hlutfall fer í blokk og marning, afköst í vinnslu hafa aukist um ríflega fjórðung, þar sem flökunargallar hafa minnkað um meira en helming.