Afkoman ekki viðunandi

Rekstrartekjur HB Granda hf. á fyrsta ársfjórðungi ársins 2019 námu 58,0 m€, samanborið við 50,2 m€ árið áður. Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir (EBITDA) var 9,7 m€ eða 16,7% af rekstrartekjum, en var 7,8 m€ eða 15,5% árið áður. Áhrif fjáreignatekna og fjármagnsgjalda voru neikvæð um 0,7 m€, en voru neikvæð um 1,3 m€ á sama tíma árið áður. Áhrif hlutdeildarfélaga voru jákvæð um 0,05 m€, en voru jákvæð um 1,4 m€ árið áður. Hagnaður fyrir tekjuskatt var 5,0 m€ og hagnaður tímabilsins var 3,9 m€.

Efnahagur

Heildareignir félagsins námu 656,8 m€ í lok mars 2019. Þar af voru fastafjármunir 554,5 m€ og veltufjármunir 102,3 m€. Eigið fé nam 270,4 m€, eiginfjárhlutfall í lok mars var 41,2%, en var 41,9% í lok árs 2018. Heildarskuldir félagsins voru í marslok 386,4 m€.

Sjóðstreymi

Handbært fé frá rekstri nam 22,2 m€ á tímabilinu, en nam 9,9 m€ á sama tíma fyrra árs. Fjárfestingarhreyfingar voru jákvæðar um 6,2 m€. Fjármögnunarhreyfingar voru neikvæðar um 22,3 m€. Handbært fé hækkaði því um 6,1 m€ á tímabilinu og var í lok mars 44,4 m€.

Meginniðurstöður færðar til íslenskra króna

Séu niðurstöður rekstrarreiknings reiknaðar til íslenskra króna á meðalgengi fyrsta ársfjórðungs 2019 (1 evra = 135,78 kr) verða tekjur 7,9 milljarðar króna, EBITDA 1,3 milljarður og hagnaður 0,5 milljarðar. Séu niðurstöður efnahagsreiknings reiknaðar til íslenskra króna á gengi 31. mars 2019 (1 evra = 137,12 kr) verða eignir samtals 90,1 milljarðar króna, skuldir 53,0 milljarðar og eigið fé 37,1 milljarðar.

Skipastóll og afli

Í febrúar var Helgu Maríu lagt, og eru nú átta skip í flota samstæðunnar.

Á fyrsta ársfjórðungi ársins 2019 var afli skipa félagsins 13,0 þúsund tonn af botnfiski og 14,8 þúsund tonn af uppsjávarfiski.

„Afkoman á ársfjórðungnum var ekki viðunandi fyrir eins stórt félag og HB Granda. EBITDA hækkaði í 9,7 milljónir evra úr 7,8 milljónum fyrir sama tímabil í fyrra, sem er gott, en hafa þarf í huga að efnahagsreikningurinn er umtalsvert stærri núna en þá. Það skiptir miklu að hafa augastað á þeim fjármunum sem liggja undir við að búa til rekstrarhagnað. Vissulega var það áfall fyrir okkur að ekki voru heimilaðar loðnuveiðar í vetur en við eigum samt að geta gert betur og að því stefnum við,“ segir Guðmundur Kristjánsson, forstjóri HB Granda hf.

 

Tengdar færslur

thumbnail
hover

Sjávarútvegsskólinn blómstrar

Árið 2013 stofnaði Síldarvinnslan Sjávarútvegsskóla Síldarvinnslunnar og hófst kennsla þá um sumarið. Skólinn var ætlaður nem...

thumbnail
hover

HB Grandi semur við ÚR um...

HB Grandi hf. hefur gert Útgerðarfélagi Reykjavíkur hf. tilboð um kaup á öllu hlutafé í sölufélögum í Japan, Hong Kong og á me...

thumbnail
hover

Lítill fiskafli í júní

Landaður afli íslenskra fiskiskipa í júní var 31,7 þúsund tonn sem er 33% minni afli en í júní í fyrra. Samdráttinn má að mest...