Bústinn eftirlitsmaður Fiskistofu

Á sjónum er fyrirkomulag launa þannig að áhöfnin fær hluta af andvirði þess sem er veitt og selt. Það fer svo eftir því hvaða stöðu menn gegna um borð hversu mikið þeir fá. Eðli máls samkvæmt fær skipstjóri mest, en hann fær tvo hluti, yfirvélstjóri fær einn og hálfan hlut og hver háseti fær einn hlut, samkvæmt pistli á heimasíðu Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi. Þar segir ennfremur:

„Taka má raunverulegt dæmi af togara sem var á karfaveiðum í 26 daga. Aflaverðmætið nam tæpum 124 milljónum króna. Skipstjórinn fékk í sinn hlut tæplega 2,5 milljón króna og hásetinn um 1,25 milljónir króna. Næst launahæsti maður um borð í togaranum var yfirvélstjóri. Hlutur hans eftir túrinn nam um 1,86 milljónum króna. En merkilegt má það heita að kostnaður útgerðarinnar vegna hans var snöggtum minni en þess sem var á milli hans og skipstjórans. Það var erindreki Fiskistofu. Kostnaður útgerðarinnar vegna hans nam rúmlega 2,1 milljón króna. Gjald fyrir eftirlitsmann um borð í fiskiskipi hefur hækkað um 181% frá árinu 2015. Fyrir þann tíma var gjaldið 29 þúsund krónur á dag, en með breytingu á lögum árið 2016 hækkaði það í rúmar 68 þúsund krónur og bundið launavísitölu. Erindreki Fiskistofu kostar því um þessar mundir 81.600 krónur á dag. Sá er munurinn á hásetanum og erindrekanum að hásetinn leggur fram vinnu í þágu fyrirtækisins, erindrekinn ekki. Samt kostar opinberi starfsmaðurinn jafngildi launa hátt í tveggja háseta.

Því hefur stundum verið haldið fram að svo kallaður eftirlitsiðnaður sé orðinn æði veigamikill kostnaður í rekstri fyrirtækja. Ekki skal gert lítið úr opinberu eftirliti, það er að sjálfsögðu nauðsynlegt. En að einn eftirlitsmaður kosti útgerðarfyrirtæki hátt í tvenn hásetalaun er einfaldlega fáránleg staðreynd, sama hvernig á málið er litið. Höfum annað í huga. Í upphaflegu frumvarpi til laga um veiðigjald sagði að gjaldinu væri meðal annars ætlað að mæta kostnaði vegna eftirlitsmanna um borð. Miðað við þær háu greiðslur sem sjávarútvegsfyrirtækjum er nú ætlað að greiða fyrir eftirlitsmenn, virðist sem þessi vilji löggjafans hafi hreint ekki gengið eftir. Því má svo bæta við að veiðigjald af fyrrgreindri veiðiferð var 13 milljónir króna. Fyrir þá fjárhæð hefði verið hægt að hafa rúmlega sex opinbera erindreka um borð. Sé veiðigjaldinu raunverulega ætlað að standa undir kostnaði við eftirlitsmann, hefur fyrirtækið í raun greitt sjö sinnum fyrir einn og sama eftirlitsmanninn. Það verður að teljast nokkuð vel í lagt.“

SFS bústinn eftirlitsmaður

Attachments

Tengdar færslur

thumbnail
hover

Steiktu hænsnafótaskinni var erfitt að koma...

Maður vikunnar að þessu sinni byrjaði að vinna í fiski í Vogum á Vatnsleysuströnd 14 ára gömul. Nú er hún einn af sölustjórum...

thumbnail
hover

2.870 útselir í grásleppunet á ári!

Umhverfisvottun á grásleppuveiðar var felld niður í byrjun þessa árs vegna áætlaðs meðafla af útsel við veiðarnar. Axel Helgas...

thumbnail
hover

Vilja sjá þorskinn lifandi áður en...

Einkennilegar óskir um kaup á sjávarfurðum berast stundum til útflytjenda og samtaka í fiskvinnslu og fiskveiðum. Beiðni um lifandi ...