Er að gera eitthvað skrýtið alla daga

Maður vikunnar að þessu sinni er forfallinn stangveiðimaður og er leiðsögumaður á sumrin. Þar fyrir utan starfar hann hjá fyrirtækinu Royal Iceland sem meðal annars vinnur beitukóng, grjótkrabba, ígulkerahrogn og ýmis önnur hrogn í Reykjanesbæ.

Nafn?

Reynir Friðriksson.

Hvaðan ertu?

Upphaflega er ég frá Ísafirði.

Fjölskylduhagir?

Ég er fráskilinn og á 3 mjög flotta stráka Sigga Helga 7 ára, Jakob Inga að verða 13 ára og Svan Jóhann sem er 21 árs.

Hvar starfar þú núna?

Hjá Royal Iceland.

Hvenær hófst þú vinnu við sjávarútveg?

Vann öll sumur við fisk og eða rækjuvinnslu á Ísafirði enda var mjög stór partur af því að alast upp fyrir vestan að vinna í fiski og oft var mikil stemmning sérstaklega á næturvöktunum.

Hvað er það skemmtilegasta við að vinna við íslenskan sjávarútveg?

Það er fjölbreytnin við og hversu lifandi umhverfi sjávarútvegurinn bíður uppá.

En það erfiðasta?

Það er þessi neikvæða umræða sem er um sjávarútveginn og gagnrýni frá fólki sem oft á tíðum þekkir lítið sem ekkert til greinarinnar.

Hvað er það skrýtnasta sem þú hefur lent í í störfum þínum?

Maður er að gera eitthvað skrítið alla daga því við erum að vinna „skrýtnar“ afurðir úr skrýtnu hráefni í samanburði við hefðbundna fiskvinnslu á Íslandi.

Hver eftirminnilegasti vinnufélagi þinn?

Það er pabbi (Friggi Jó) en ég var með honum á sjó eins og við flestir bræðurnir þegar ég var unglingur og vorum við þá bæði á rækju og skel.

Hver eru áhugamál þín?

Ég er forfallinn stangveiðimaður og finnst ekkert skemmtilegra en að vera með veiðistöng við einhverja flotta á að renna fyrir fisk. En ég hef starfað sem leiðsögumaður í lax og silungsveiði í 20 ár og alltaf stokkið í það á sumrin.

Hver er uppáhaldsmaturinn þinn?

Það er erfitt að segja ég er mjög hrifinn af feitum fiski og bleikur fiskur er mjög ofarlega á matseðlinum en líklega verð ég að segja léttgrillaður kóngakrabbi.

Hvert færir þú í draumfríið?

Að veiða annaðhvort á norður Kúbu eða Mexíkó.

 

Tengdar færslur

thumbnail
hover

Samstarf Eimskips og Royal Arctic Line...

Eimskip og grænlenska skipafélagið Royal Arctic Line hafa fengið undanþágu frá Samkeppniseftirlitinu um að fyrirtækjunum sé heimil...

thumbnail
hover

Hlökk ST með mest af grásleppu

Heildarafli á grásleppuvertíðinni var nú um páskana kominn í 1.887 tonn, en á sama tíma fyrir ári var aflinn 1.894 tonn. Fimmtán ...

thumbnail
hover

Unga fólkið borðar allt of lítið...

Ungt fólk nú til dags borðar helmingi minna að fiskmeti en afar þeirra og ömmur gerðu á sama aldri. Skortur á kunnáttu við matrei...