Eru að murka úr okkur lífið

Ólafur Rögnvaldsson, framkvæmdastjóri Hraðfrystihúss Hellissands, er verulega ósáttur við veiðigjaldið eins og það er innheimt nú. „Ef það er stefna stjórnvalda og annarra að leggja niður þessar útgerðir, skulu þau bara gera það almennilega í stað þess að vera að murka svona úr okkur lífið,“ segir hann.

Þegar blaðamann bar að garði að höfninni á Rifi, var verið að landa úr línuskipinu Rifsnesi, sem fyrirtækið gerir út ásamt öðru línuskipi, Örvari. „Þetta er bara annar túrinn hérna heima við. Uppistaðan er langa, ufsi og blálanga í bland við þorsk. Kannski helmingurinn þorskur. Um 50 tonn eftir túrinn. Hann fer svo aftur hérna út í svona skrap, því það er ekkert farið að glæðast fyrir norðan.  Örvar er úti af Vestfjörðum og kemur heim og landar á miðvikudaginn. Við sjáum svo til hvort við sendum hann annan túr þangað  eða norður fyrir. Við metum það þegar að því kemur,“ segir Ólafur.

Ólafur Rögnvaldsson er ekki sáttur við útreikning veiðigjalds og telur hugmyndir um eftirlitsmyndavélar vera brandara.

Ólafur Rögnvaldsson er ekki sáttur við útreikning veiðigjalds og telur hugmyndir um eftirlitsmyndavélar vera brandara.

Afkoman ekki nógu góð

Þeir vinna þorsk og ýsu  í húsinu og þorskurinn fer aðallega ferskur til Bretlands og meginlands Evrópu Hitt á markað innanlands Ólafur segir að afkoman af því sé ekki nægilega góð, mætti gjarnan vera betri. „Við sem erum sjóaðir í greininni þekkjum það að  hagurinn í veiðum og vinnslu er bara eins og sjórinn, eins og öldurnar á sjónum. Stundum eru toppar og stundum lægðir. Við erum sennilega í lægðinni núna og búnir að vera. Það er aðallega gengið sem er að gera okkur lífið leitt. Verðið erlendis er svipað verið hefur.

Innlendi kostnaðurinn vex stöðugt

Við sjáum það reyndar ekki á innflutningnum að hátt gengi skili sér til okkar. Ég get ekki séð annað en að öll aðföng og annað hækki og hækki eins og enginn sé morgundagurinn. Það á til dæmis við um frauðplastið. Það er Promens Tempra sem flytur það inn og bættir bara stöðugt við verðið. Það er mjög miður, þegar svoleiðis er. Þegar menn haga sér þannig í skjóli sterkrar stöðu á markaðnum, hlýtur lausnin að vera sú að snúa sér að einhverju öðru. Flytja fiskinn út í einhverju öðru en frauðplastkössum. Mér sýnist að þeir séu að verðleggja sig út af markaðnum.  Þetta er orðið alltof dýrt.

Þannig hækkar innlendi kostnaðurinn stöðugt en minna kemur heim af krónum vegna gengisins. Við getum þar líka nefnt flutningskostnaðinn. Hann er mjög mikill. Við erum kannski að flytja 2.000 tonn af fiski að norðan og hingað heim til vinnslu á ári. Það er enginn smá kostnaður við það. Síðan hafa kolefnisgjöld hækkað og olían hækkar í verði. Allt bitnar þetta á okkur og minnkar afkomu veiða og vinnslu.“

Hraðfrystihús Hellissands vinnur þorskinn að mestu leytiferskan til útflutnings.

Hraðfrystihús Hellissands vinnur þorskinn að mestu leyti ferskan til útflutnings.

Óásættanlegt að borga 12% tekna í veiðigjöld

Ólafur er heldur ekki sáttur við veiðigjaldið, segir það alveg óásættanlegt að vera að borga 12% af tekjum í veiðigjald. Hann segir að einhverja lausn verði að finna á því og 5 til 6% gæti verið nær lagi. „Við erum með 14 manns á hvorum bát, eins og veiðigjaldið er núna erum við að borga sem samsvarar hlut átta manna beint til ríkisins. Það eru fjórir hlutir á hvorum bát, sem við þurfum að borga til ríkisins fyrir að fá að fara út á sjó og veiða. Eins og allir vita sem til þekkja eru línuveiðarnar  mjög dýrar og kostnaðarfrekar miðað við troll. Það er okkar val að gera út á línu, en ég hugsa að það væri nú ekkert gott ef allir gerðu út á troll. Það yrði alltof einhæft og ekki eins góður fiskur. En því miður fáum við ekki lengur umbun í afurðaverði fyrir að vera með línufisk, því afurðaverð fyrir fisk úr trolli og af línu er hið sama í dag.

Svo virðist að Íslendingar horfi aðeins á þessi þrjú til fjögur uppsjávarfyrirtæki sem eru að skila miklum hagnaði, en við þessir meðalstóru og smærri erum ekki í þeim geira. Það hljóta allir sjá að breyta verði grunni veiðigjaldsins og alla vega færa það til samræmis við afkomuna eins og hún er í dag. Ef það er stefna stjórnvalda og annarra að leggja niður þessar útgerðir, skulu þau bara gera það almennilega í stað þess að vera að murka svona úr okkur lífið. Það er ekki svona mikið til okkar að sækja, þó ansi margir haldi það og að hægt sé að bjarga nánast hverju sem er í ríkisrekstrinum með því að taka bara nógu mikið af sjávarútveginum. Auðvitað er það ekki þannig og ég er reyndar þeirrar skoðunar að 10% ríkisstarfsmanna sé ofaukið. Þeir hafa ekkert í vinnunni að gera og þar væri hægt að sópa ansi vel út. Það er ekki hægt að búa til endalaus störf hjá ríkinu.

Eftirlitsmyndavél á Fiskistofu?

Sem dæmi má nefna að eftirlitsiðnaðurinn er orðinn svo gríðarlega mikill, að varla má labba niður stiga án þess að fá leyfi til þess. Svo á að setja eftirlitsmyndavélar um borð í skipin. Af hverju setja þeir ekki myndavélar upp á Fiskistofu til að sjá hvort þeir séu í vinnunni og hvað þeir séu að gera. Maður veit ekki hvar þetta endar og hverjir ætla að standa í því að lesa af öllum þessum myndavélum. Þessar hugmyndir eru bara brandari. Ef það eru einhverjir sem hafa eitthvað óhreint í pokahorninu, þarf bara að taka á þeim og láta okkur hina sem förum að lögum og reglum í friði,“ segir Ólafur.

Ljósmyndir Hjörtur Gíslason.

Attachments

Tengdar færslur

thumbnail
hover

Lax með feta og fleiru

Þó laxveiðin í ám landsins hafi gengið illa í sumar og Hafró hafi hvatt veiðimenn til að sleppa sem flestum veiddum löxum, er nó...

thumbnail
hover

Makrílvertíð að hefjast hjá Síldarvinnslunni

Nú er makrílvertíðin að hefjast hjá Síldarvinnslunni en gert hefur verið ráð fyrir að vinnsla á makrílnum hæfist 20. júlí og...

thumbnail
hover

Vigdís heilsaði upp á Vigdísi

Vigdís Hauksdóttir, borgarfulltrúi Miðflokksins, hitti nöfnu sína skilvinduna í fiskimjölsverksmiðju VSV á dögunum og urðu þar ...