Fallist á tillögu um 20.000 tonna laxeldi í Eyjafirði

Skipulagsstofnun hefur tekið ákvörðun um matsáætlun fyrir mat á umhverfisáhrifum allt að 20.000 tonna laxeldis í lokuðum sjókvíum í Eyjafirði. Fallist er á tillögu Akvafuture ehf. að matsáætlun með athugasemdum samkvæmt umfjöllun í Fiskeldisblaðinu.

Fjallað er um málið á vefsíðu Skipulagsstofnunnar. Þar segir m.a. að í tillögu Akvafuture að matsáætlun kemur fram að ætlunin sé að framleiða allt að 20.000 tonn af laxi í lokuðum eldiskvíum í Eyjafirði. „Beitt verði nýrri eldistækni með minni neikvæðum umhverfisáhrifum. Markmiðið er að framleiðslan verði sjálfbær og að framleiðsluaukning verði stigvaxandi samhliða umhverfisvöktun og reynslu. Framkvæmdin er fyrirhuguð á sex aðskildum eldissvæðum í innanverðum Eyjafirði, frá Hjalteyri að Svalbarðseyri.“

Ennfremur segir að eldistæknin hafi verið þróuð af fyrirtækinu AkvaDesign AS og sé nýtt til framleiðslu á eldislaxi í Noregi. Hún komi meðal annars í veg fyrir að laxalús skaði eldislaxinn þar sem sjóvatni sé dælt inn í eldiskvíar á 25-30 metra dýpi þar sem laxalús sé ekki að finna.

„Með þessari eldistækni sé einnig dregið úr umhverfisáhrifum laxeldis á nærsvæði eldisins, þar sem með auðveldum hætti sé mögulegt að safna upp allt að 70% af botnfalli frá eldinu. Lokaðar eldiskvíar eins og hér um ræðir dragi einnig úr líkum á að fiskur sleppi og áhrif eldisins á villta laxastofna séu því í lágmarki. Slysasleppingar séu bundnar við stórslys, sbr. ákeyrslu stærri skipa, hafís eða mistök við flutning á fiski,“ segir á vefsíðunni.

Næsta skerf í málinu er gerð frummatsskýrslu en Skipulagstofnun segir að í henni þurfi að leggja mat á samlegðaráhrif frá annarri starfsemi sem losar næringarefni og er mengandi sem og gagnvirk áhrif fyrirhugaðs fiskeldis í Eyjafirði. Meta þarf samlegðaráhrif á botndýralíf, smitsjúkdóma, laxalús, villta laxastofna og siglingar sem og aðrar sjávarnytjar.

 

Tengdar færslur

thumbnail
hover

Lax með feta og fleiru

Þó laxveiðin í ám landsins hafi gengið illa í sumar og Hafró hafi hvatt veiðimenn til að sleppa sem flestum veiddum löxum, er nó...

thumbnail
hover

Makrílvertíð að hefjast hjá Síldarvinnslunni

Nú er makrílvertíðin að hefjast hjá Síldarvinnslunni en gert hefur verið ráð fyrir að vinnsla á makrílnum hæfist 20. júlí og...

thumbnail
hover

Vigdís heilsaði upp á Vigdísi

Vigdís Hauksdóttir, borgarfulltrúi Miðflokksins, hitti nöfnu sína skilvinduna í fiskimjölsverksmiðju VSV á dögunum og urðu þar ...