Fiskur með tómötum og lauk

Einfaldleikinn er oftast bestur. Það finnst okkur Helgu enda erum við ekkert fyrir að flækja hlutina. Þegar við erum löt eftir langan vinnudag, sem kemur fyrir, er gott að elda eitthvað þægilegt og fljótlegt. Henda í pott eða pönnu meðan kallinn horfir á fréttir og konan hringir í dæturnar. Þetta er svipað þegar finna þarf góða uppskrift á vefinn. Þá förum við bara á veiðar og löndum framhjá vigt eða þannig. Fáum uppskriftarkvóta frá öðrum og látum Fiskistofu ekki vita. – En auðvitað fara þeir alltaf inn á síðuna til að fylgjast með. – Er nokkur fiskur orðinn utan kvóta lengur? Þessa þægilegu, góðu og hollu uppskrift drógum við af netinu og mælum heilshugar með henni. Uppskriftin er miðuð við þrjá og við bættum aðeins í hana. Ef fleiri eru i heimili er bara að bæta við og ef við erum færri, er bara flottur afgangur í hádegismatinn.
Innihald:
1 kg af fisk (ýsa eða þorskur)
3 tómatar
2 laukar, annar rauður
Rifinn ostur, magn eftir smekk
75 g smjör
dill
steinselja
salt
Aðferð:
Fiskflökin skorin í hæfilega bita. Tómatarnir og laukurinn skornir í grófa bita. Smjörið líka skorið í bita. Raðið fisknum í ofnform, ofan á það tómatarnir og laukurinn smjörinu dreift yfir og svo kryddað að vild. Loks fer osturinn yfir. Svo er alltaf hægt að bæta við uppskriftina eftir því hvað er til og hverjar kenjar kokksins eru hverju sinni
Bakið í ofni í um 25 mínútur á 180°C.
Meðlæti er að hvers manns vali, en okkur finnst gott að sjóða grjón með og ef okkur finnst að fötin okkar séu farin að þrengjast notum við brún grjón til að sefa samviskuna og drekkum vatn með matnum.