-->

Fjölþjóðlegur fiskréttur

Þegar við Helga köstuðum út netinu í vikunni kom þessi fína uppskrift upp úr kafinu. Víða leynast góðar uppskriftir og hafa margar tekið töluverðum breytingum frá upphafinu, hvaðan sem ræturnar liggja. Uppruninn skiptir í rauninni ekki öllu máli þegar uppskrift er annars vegar. Málið er að rétturinn sé góður og eins og venjulega eru uppskriftir fyrst og fremst tillaga að matseld, ekki heilög ritning. Ýsan er úr Norður-Atlantshafinu en kryddið kemur víða að. Góð blanda byggð á góðum grunni er alltaf góð, svona fjölþjóðlegur fiskréttur.

Innihald:

800 g ýsuflök, beinhreinsuð og roðflett
1 msk kókosolía
1 msk sesamolía
1 msk seamfræ
3 msk tamarisósa
1 msk hvítvínsedik
1 tsk agavesíróp
3 sm bútur ferskur engifer, afhýddur og saxaður mjög smátt
3 hvítlauksrif, afhýdd og söxuð smátt
4-8 vorlaukar, eftir stærð
1 mandarína
Rauð eða gul paprika, skorin í strimla
Smávegis af svörtum pipar

Aðferðin:

Skerið ýsuna í 12 jafnstóra bita. Blandið saman í skál; kókosolíunni, tamari-sósunni, hvítvínsedikinu, sesamolíu og fræjum, laufunum úr mandarínunni og agavesírópi. Hrærið vel. Afhýðið engiferinn og hvítlaukinn og saxið smátt. Setjið út í skálina. Skerið vorlaukana í 5 sm bita og setjið í skálina. Skerið paprikuna langsum, fræhreinsið og skerið hana í strimla. Setjið út í skálina. Hellið innihaldi skálarinnar yfir ýsubitana. Látið ýsubitana liggja í vökvanum í 1-2 klukkustundir eða lengur. Takið ýsubitana upp úr og leggið í eldfast mót. Takið sem mest af grænmetinu sem er í skálinni og látið það með skeið ofan á ýsubitann. Hellið vökvanum yfir ýsubitana. Kryddið svolítið með svörtum pipar. Hitið ofninn í 140°C og bakið fiskinn í 10-15 mínútur.
Berið fram með með grjónum, brauði og salati að eigin vali og sama á við drykki með kræsingunum.