Fyllir fólk af fróðleik um hákarl

Hákarlasafnið í Bjarnarhöfn er vinsæll viðkomustaður ferðamanna sem fara um norðanvert Snæfellsnesið. Á safninu er mikill fjöldi muna, sem tengist hákarlaverkun, en slík verkun hefur verið unnin í fjölskyldunni í Bjarnarhöfn í margar kynslóðir.

IMG_7615

Kristján Hildibrandsson tekur á móti gestum og leiðir þá um safnið og sýnir myndir af hákarlaverkun og fyllir þá af fróðleik um grænlandshákarlinn, sem bæði verður mjög stór, mjög gamall og gómsætur að verkun lokinni. Hann gefur svo smakk og viðurkennir að hákarlinn fari misvel í fólkið. Flestir séu reyndar búnir undir eitthvað mjög sérstakt, en það hjálpi mikið að sýna fólki hvernig verkunin gengur fyrir sig og að hér sé um sérstaklega holla og góða sjávarafurð að ræða. Sumir stökkvi reyndar beint á salernið til að losa sig við bitann, en aðrir biðji um meira og það var raunin þegar Kvótinn leit við á safninu. Þar var ungt erlent par sem beinlínis smjattaði á hákarlinum og gæddi sér á fleiri en einum bita.

En í Bjarnarhöfn er ekki bara safn. Þar er líklega stærsta hákarlaverkun landsins, sem tekur á móti um 70 hákörlum á ári til verkunar. Eins og flestir vita er er helsti sölutíminn fyrir hákarl þorrinn, en hákarlinn er hollur allt árið um kring og sérlega góður fyrir meltinguna í hæfilegu magni.

Grænlandshákarlinn er talinn vera það hryggdýr á jörðinni, sem nær hæstum aldri, eða um 400 árum. Hann er frekar svifaseinn, liggur mest á hafsbotninum og étur það sem þar fellur til. Þegar kólnar færir hann sig ofar í sjóinn og veiðist þá mest í troll sem meðafli við aðrar veiðar. Engar beinar hákarlaveiðar eru nú stundaðar við Ísland, en fyrr á öldum og fram á þá síðustu var mikið veitt af hákarli, fyrst og fremst vegna lýsis, sem selt var til útlanda til að lýsa upp stórborgir eins og Kaupmannahöfn. Á tímabili var hákarlalýsi einhver verðmætasta útflutningsafurð Íslendinga, en svo kom gasið og rafmagnið og eftirspurnin hvarf.

 

Attachments

Tengdar færslur

thumbnail
hover

Gylfi hættir sem forstjóri Eimskips um...

Stjórn Eimskipafélags Íslands hf. og forstjóri félagsins Gylfi Sigfússon hafa komist að samkomulagi um að Gylfi láti af störfum se...

thumbnail
hover

Flytur erindi um plast í þorski...

Föstudaginn 23. nóvember kl. 11:00 mun Anne de Vries flytja erindi á málstofu Hafrannsóknastofnunar. Erindið mun fjalla um mælingar A...

thumbnail
hover

Samdráttur í útflutningi frá Færeyjum

Útflutningur sjávarafurða frá Færeyjum dróst saman á fyrstu níu mánuðum ársins um 15% í verðmæti og 8% í magni. Heildarverðm...