Hef alltaf verið ósáttur við veiðigjöldin

Jón Ragnar Ríkharðsson er einn þeirra sem fóru af gamla ísfisktogaranum Ásbirni RE yfir á nýsmíðina Engey RE á síðasta ári. Hann segir breytinguna vera byltingu. Enginn ísmokstur, mannlaus lest og allt annar aðbúnaður fyrir áhöfn að öllu leyti. Hann hefur ákveðnar skoðanir og liggur ekki á þeim.

„Ég byrjaði á sjó 1981, strax eftir skylduna og er því búinn að vera að mestu leyti á sjó í 37 ár, reynda með smá hléi í húsasmíðum. Manni finnst það nokkuð langur tími, sérstaklega þegar litið er til þess, að þeir sem voru að fæðast þá, eru orðnir fullorðnir menn. Ég byrjaði á togaranum Hafþóri, gamla Baldri. Hann var hjá Hafrannsóknastofnum. Við voru mikið í veiðarfæratilraunum og ýmsum verkefnum. Við vorum mest á togveiðum.

Í húsasmíði um tíma

Svo fór maður bara á vertíðar á hina ýmsu báta og togara. Maður var út um allt því ég var örlaga fyllibytta frá 16 ára aldri til tvítugs. Þá þvældist maður um allt land og var misjafnlega lengi á hverjum stað. Ég hætti svo að drekka brennivín þegar ég var tvítugur og hef ekki smakkað það síðan. Þetta var svolítið sérstakt líf og reyndar gaman að upplifa þessa verbúðarstemningu, sem var og hét. Það var ýmislegt sem kom upp á, sem væntanlega er nú ekki prenthæft,“ segir Jón Ragnar.

Jón Ragnar Ríkharðsson

Hann fór svo í land um tíma. „Ég lærði síðan húsasmíði og var að vinna í því í níu ár. Ég lenti þá í góðærinu og öllu sem því fylgdi og þénaði helvíti vel. Rak fyrirtæki ásamt þremur öðrum. Svo þegar hrunið var að skella á, ákvað ég að fara á sjóinn aftur. Mér leist ekkert orðið á hvernig byggingamarkaðurinn var orðinn. Hann var farinn að dala mikið og maður hafði það á tilfinningunni að ekki væri um auðugan garð að gresja þar lengur. Ég ætla þó ekki að segjast hafa verið svo gáfaður að hafa séð hrunið fyrir eins sumir gera.

Mokfiskuðum alltaf

Ég byrjaði á Ásbirni RE 27. september 2008, þegar þessir miklu atburðir gerðust. Ólafur Einarsson var með hann þá og við mokfiskuðum alltaf. Við vorum yfirleitt að fylla hann á þremur sólarhringum. Allir skipstjórar á Ásbirni hafa verið mjög góðir fiskimenn. Við vorum mikið á karfa- og ufsaveiðum þá en síðan fórum við að fá að veiða þorsk líklega 2009 og síðan höfum við verið í þorski, ufsa og karfa og fiskuðum vel. Vorum yfirleit ekki meira en þrjá sólarhringa að fylla og mér þótti túrarnir orðnir langir ef þeir náðu fimm sólarhringum.“

Á síðasta ári leysti nýsmíðin Engey Ásbjörn af hólmi og fór áhöfnin af Ásbirni yfir á hið nýja skip, sem er búið sjálfvirku flutningskerfi fyrir kör í lest og íslausu kælikerfi og tekur mun meira af fiski í lest. Friðleifur Einarsson er með skipið. „Mikill öðlingur og heiðursmaður,“ segir Jón Ragnar.

Mikil viðbrigði

„Á Engey erum við hins vegar oftast fimm sólarhringa úti í einu. Hún tekur náttúrulega miklu meira en Ásbjörn og ferlið er heldur hægara. Við ísum ekki fiskinn og það tekur hann svolítinn tíma að kólna í sniglunum. Það voru mikil viðbrigði að fara af Ásbirni yfir á Engey. Mér hefur reyndar alltaf þótt vænt um Ásbjörn og sakna skipsins að vissu leyti. Hann hafði óskaplega góða sál og greinilegt að þar um borð hafa alltaf verið góðir menn. Það var eitthvað svona gott við skipið, þó hann hafi verið gamall og hrörlegur og vinnuaðstaðan mjög erfið í lestinni. Þegar það komu afleysingarmenn af öðrum skipum skildu þeir ekkert í því hvernig við héldum það út að vinna við þessar aðstæður. Það var hins vegar mikið sami mannskapurinn um borð og mórallinn mjög góður. Það var einhver sjarmi við Ásbjörn.

Á Engey eru hreinlega allar aðstæður til alls miklu betri. Þar er hver maður með sér klefa með klósett og sturtu á milli klefanna. Maður þarf því ekki að fara langt ef maður þambar of mikið kaffi á vaktinni og þarf á klósett. Það er bara að velta sér framúr og taka örfá skref til að losa þvagblöðruna. Þetta er í raun og vera bara bylting, bæði í aðbúnaði og vinnuaðstöðu. Maður stendur ekki lengur ofan á körum í lestinni að taka á móti fiskikörum í veltingi dauðhræddur um að körin við hliðina velti yfir mann eins og var á Ásbirni. Nú er sjálfvirkt kerfi sem fer með körin niður í lest og raðar þeim upp án þess að maður komi þar nærri. Það er líka mikill léttir að losna við ísmoksturinn. Þetta fer því miklu betur með skrokkinn á manni. Það verður þó aldrei svo að sjómennskan verði auðvelt starf.

Engeyin er ágætt sjóskip. Mér finnst hún reyndar höggva meir á móti en Ásbjörn. Hann gat reyndar oltið alveg svakalega mikið, en á móti fannst mér hann mýkri. Hann hjó ekki eins og Engeyin gerir.“

Jón Ragnar. Aðstæður á millidekkinu

Enginn hátekju bissness

Þá ræðum við um kjör sjómanna og síðustu samninga, en í fyrra voru sjómenn i löngu verkfalli: „Laun sjómanna hafa lækkað mikið út af hækkun á gengi krónunnar. Það virðist vera svo mikil samkeppni við önnur lönd að útgerðarmenn segjast ekki geta bætt okkur það. Þeir fái minna verð fyrir aflann. Því er það enginn hátekju bissness að vera til sjós. Það er langur vegur þar frá, en tekjurnar duga til þess að maður þarf ekki að óttast að húsið verði boðið ofan af manni. Þetta svona sleppur.

Þessir síðustu samningar voru svolítið sérstæðir. Ég held að það sé enginn sjómaður ánægður með útkomuna. Verkfallið var langt og miðað við þær kjarabreytingar, sem hann færði okkur, held að engum finnist að hann hafi hagnast á því að hafa verið í löngu verkfalli og tapað tekjum. Ég held að það þurfi að breyta áherslunum í þessum kjaraviðræðum. Það þarf að skapa meira traust á milli manna. Það er í raun og veru enginn munur á sjómönnum og útgerðarmönnum. Útgerðarmenn eru bara venjulegir menn sem eru aðgæta sinna hagsmuna og sjómenn eru það líka. Þess vegna þurfa þessir aðilar að komast niður á eitthvert  sameiginlegt plan, þannig að menn skilji hagsmuni hvors annars betur, séu tilbúnir til að koma til móts hvorir við aðra. Þetta er svona ákveðið vandamál sem er til staðar og hefur alltaf verið, að sumir sjómenn álíta útgerðarmenn hálfgerða glæpamenn og þjófa, en það eru reyndar fleiri en sjómenn sem álíta það. Við slíkar aðstæður getur ekki orðið traust milli manna.“

Þetta helvítis veiðigjald

Við förum síðan út í þær álögur, sem sjávarútvegurinn ber í dag. Hátt veiðigjald, kolefnisgjöld og ótalmargt fleira. Jón Ragnar er fljótur til vars: „Þetta helvítis veiðigjald, ég hef alltaf verið mjög ósáttur við það. Mér finnst það óréttlátt. Ég er kominn af sjómönnum vestan af Breiðafirði og veit alveg hversu miklar fórnir sjómenn hafa fært og þurft að færa í genum aldirnar til þess að bera björg í bú. Auðlind er eitthvað sem er skapað af mönnum. Fiskur í sjó er ekkert annað en bara dýr sem synda í sjónum  og eru engum til gagns, nema einver sé tilbúinn til þess að sækja þennan fisk og skapa einhver verðmæti úr honum. Hér áður fyrr rak dauða loðnu á land öllum til ama og karfi var ekki nýttur. Það var gamall sjómaður frá Eyjum sem sagði mér frá því að þeir voru oft að moka humrinum í sjóinn, því engum datt í hug að hann væri matur.

Útvegurinn, sjómenn, fiskverkafólk og allir sem starfa við útgerð eru þeir aðilar sem búa til auðlindina úr fiskinum í sjónum. Þegar svo er búið að skapa verðmæti úr þessari auðlind og góðar tekjur, þá fara einhverjir stjórnmálamenn að slá sig til riddara og fólk, sem aldrei hefur komið um borð í skip eða unnið í fiski eða engan áhuga hefur haft á að búa til verðmæti úr sjónum, fer þá að tala um að auðlindin sé þjóðareign.

Það á að skapa skilyrði til að græða

Ég aðhyllist ákveðið réttlæti sem kallast „verðskuldunarréttlæti“ og það þýðir einfaldlega að þú fáir að njóta ávaxta erfiðis þíns. Þess vegna er ég mjög harður á því að þeir sem verðskulda hagnaðinn af auðlindinni, eru þeir sem vinna við að skapa verðmæti úr henni. Auðvitað á útgerðin að njóta þess að skapa skapa mikil verðmæti úr auðlindinni og skapa vinnu og aukin tækifæri fyrir þá sem við útveginn starfa. Útgerðin á síðan bara að borga eðlilega skatta eins og önnur fyrirtæki.

Fyrir liggur það álit margra sérfræðinga að veiðigjöldin séu of há og mjög íþyngjandi fyrir smærri útgerðir. Hátt auðlindagjald til langs tíma gengur á forðann og fyrirtækin geta ekki á endanum staðið í eðlilegri endurnýjun og framþróun sem er forsenda þess að þeim vegni vel og sú velgengni skili sér til þeirra sem við útveginn starfa og þjóðarinnar allrar. Það sem stjórnvöld eiga að gera allt sem í þeirra valdi stendur til að skapa tækifæri fyrir fólk að græða. Það leiðir af sér auknar tekjur fyrir ríkissjóð  og meiri ánægju og sátt í samfélaginu. Ekki gengur að stjórnvöld séu að vinna gegn hagsmunum þeirra sem eru að skapa mestu verðmætin. Auðlindagjöldin áttu að vera einhverskonar málamiðlun til að skapa sátt um sjávarútveginn og fiskveiðistjórnunarkerfið. Við sjáum það hins vegar það skapaði enga sátt.“

Pólitískir „lúserar“

Jón Ragnar er Formaður verkalýðsráðs Sjálfstæðisflokksins og varaþingmaður. Pólitíkin er honum ofarlega í huga og liggur ekki á skoðunum sínum: „Vinstri flokkarnir á Íslandi eru pólitískur „lúserar“. Þeir hafa atast í Sjálfstæðisflokknum áratugum saman en aldrei haft erindi sem erfiði. Þegar eitthvað bitastætt hefur gerst í efnahagsmálum og þjóðmálum almennt hefur Sjálfstæðiflokkurinn verið við völd. Ég er svona harður Sjálfstæðismaður vegna þess hve handónýtir hinir flokkarnir eru.“

Bara saklaust grín

„Það myndast oft um borð sérstök stemning og það sem einhverjir vitleysingar myndu í dag kalla einelti, er ekkert einelti, heldur bara saklaust grín. Það verður til svona samkomulag um að hreyfa aðeins við mönnum. Það er oft gaman að sjá hvernig spuninn þróast. Mér dettur í hug að á einum togaranum kom einn um borð þegar við vorum að fara út. Hann segir svona: „Strákar, vitið þið hvern ég hitti í landi.“ Þá sagði einn. Nei, við viljum ekkert heyra það. Hann varð voðalega skrýtinn á svipinn. Svo tóku bara allir þátt í þessu sögðust ekkert vilja vita hvern hann hefði hitt. Sögðust engan áhuga hafa á því.

Svo stóðu menn bara upp og fóru í næsta afdrep. Vinurinn sat svo bara eftir, enn svolítið skrýtinn á svipinn. Svo var búið að sleppa og farið frá bryggju. Þá kom skipstjórinn niður og fer að fá sér kaffi og segir við félagann: „Komdu sæll og hvað er svo að frétta.“ „Já, á ég að segja þér hvern í hitti í landi? Það var hann, (og nefndi nafnið á honum) var bara kominn með  barnavagn og konu upp á arminn.“ Skipstjóranum þótti það mjög merkilegt og sagði okkur frá því. Þegar við komum svo inn í borðsal skömmuðum við hann fyrir að vera ekkert að segja okkur frá þessu. Að vinur okkar sé bara trúlofaður konu og kominn með barn „Þú segir skipstjóranum allt og það er naumast hvað þú ert merkilegur með þig.“ Svo var alltaf veriðað skjóta þessu á karlræfilinn allan túrinn. Það var mjög gaman að fylgjast með manninum. Hann  fór alveg gjörsamlega í flækju þegar minnst var á þetta og varð hreinlega reiður þessum saklausa hrekk,“ segir Jón Ragnar um lífið um borð.

Viðtal Hjörtur Gíslason.  Myndir Þröstur Njálsson. Viðtalið birtist fyrst í blaðinu Sóknarfæri.

 

 

Attachments

Tengdar færslur

thumbnail
hover

Alltaf nóg að gera

Maður vikunnar að þessu sinni vinnur við að selja fisk, en hann byrjaði að vinna við sjávarútveg 1971 þegar hann var á Barða NK...

thumbnail
hover

Opinn fundur hjá Marel

Mánudaginn 27. maí býður Marel öllum þeim sem hafa áhuga á að kynna sér félagið á opinn fund í höfuðstöðvum félagsins í ...

thumbnail
hover

Leggja til 22 breytingar á fiskeldisfrumvarpi

Frumvarp sjávarútvegsráðherra um breytingu á ýmsum lagaákvæðum um fiskeldi hefur verið afgreitt frá atvinnuveganefnd Alþingi.  ...