Hefur aldrei leiðst að vinna

Grindvíkingurinn Guðni Gústafsson er maður vikunnar á kvótanum að þessu sinni. Hann er orðinn 78 ára gamall, en hefur unnið allt fram á þetta ár, en hefur verið töluvert frá vegan slyss og veikinda. Hann vonast til að komast til vinnu á ný.

Nafn?

Guðni Gústafsson

Hvaðan ertu?

Grindavík.

Fjölskylduhagir?

Fráskilinn, tvær uppkomnar dætur og tveir fóstursynir.

Hvar starfar þú núna?

Við salfiskverkun Gjögurs í Grindavík. Hef reyndar verið frá vinnu hluta ársins vegan slyss og veikinda.

Hvenær hófst þú vinnu við sjávarútveg?

Ég var mikið í sveit frá 7 til 14 ára aldurs, en byrjaði reyndar að aðstoða pabba á grásleppu 10 ára. Þá var bara verið að fiska til heimilisins. 1956 fór ég fyrst á sjó fyrir alvöru á síld. Svo var maður á sjó til 1964. Eitt árið var ég á millilandaskipi. Síðan fór ég að keyra vörubíl og gerði það fram undir 1990. Þá fór ég að splæsa víra í Möskva og síðan fór ég til Gjögurs.

Hvað er það skemmtilegasta við að vinna við íslenskan sjávarútveg?

Það var virkilega gaman á síldinni í gamla daga og á vetrarvertíð með Hafsteini á Gullfara. Annars hefur mér aldrei þótt leiðinlegt að vinna.

En það erfiðasta?

Það hefur ekkert verið erfitt í öll þessi ár, nema þá helst að missa úr vinnu.

Hvað er það skrýtnasta sem þú hefur lent í í störfum þínum?

Það var svolítið sérstakt hérna um árið sem ég var á millilandaskipinu. Við áttum að vera í einn mánuð og koma heim með salt, en urðum of seinir til að koma með saltið. Skipinu voru því fundin ýmis önnur verkefni ytra og komum við ekki heim fyrr en eftir þrjá mánuði. Við tókum spænskan listamann um borð fljótlega eftir að við komum út en hann hafði fengið far til Íslands með okkur. Hann þvældist síðan með okkur allan tímann áður en við héldum heim. Honum leist ekkert á að koma til Rússlands. Var hræddur um að fá ekki að fara í land, þar sem Franco var þá við völd á Spáni og ekki vinsæll í Rússlandi.
Það stóð einnig til að við færum til Alsír að sækja gras og fara með það til Bretlands þar sem nota átti það við pappírsgerð, en til allrar hamingju varð ekkert úr því vegna þess að þá hefðum við lent inni í miðri uppreisn í Alsír.

Hver eftirminnilegasti vinnufélagi þinn?

Þeir hafa flestir verið góðir og enginn slæmur.
Hver eru áhugamál þín?

Ég hef mjög gaman af því að fylgjast með körfubolta og einnig sótti ég fótboltaleiki töluvert áður fyrr.

Hver er uppáhaldsmaturinn þinn?

Feitt saltað hrossakjöt.

Hvert færir þú í draumfríið?

Ég hef eiginlega aldrei farið í frí. Hef þó stundum skroppið vestur á firði en bara í stuttan tíma. Ég held það lensgta hafi verið í 10 daga. Annars held ég mig bara heima.

 

 

Tengdar færslur

thumbnail
hover

Leiðindaveður á loðnumiðunum

Íslensku loðnuskipin voru að fá ágæt köst á föstudag og laugardag en í gær var erfitt að kasta vegna leiðindaveðurs. Flotinn v...

thumbnail
hover

Fullbúið uppsjávarskip eftir breytingarnar

Á dögunum lauk hjá Slippnum Akureyri ehf. viðamiklum breytingum á uppsjávarskipinu Jóni Kjartanssyni SU 111 sem er í eigu Eskju hf. ...

thumbnail
hover

Illa gengur að ná ufsanum

Á sl. þremur fiskveiðiárum hafa veiðar á ufsa vikið langt frá útgefnum veiðiheimildum.  Um 35 þúsund tonn vantar upp á fulla n...