-->

Helgubleikja með humri

Hvort sem sumarið kemur eða ekki, þurfum við að borða. Og kannski er bara gott að hugga sig við góðan mat og hafa það kósý, þegar veðrið er að plaga mann. Og þá er að finna eitthvað meiriháttar. Við keyptum okkur humar í fyrradag og fengum bleikju í gær, hvorttveggja fyrir sig algjört lostæti, en við ákváðum að gera algjöra veislu úr þessu yndislega hráefni saman. Engin uppskrift, bara spilað af fingrum fram. Niðurstaðan varð einstaklega góður réttur með ýmis konar grænmeti. Réttur fyrir rómantískan kvöldverð fyrir elskendur á öllum aldri; kertaljós á köldum vetri; kvöldsólin að sumri. Kælt hvítvín, kærleikstónlist í græjunum. Bara yndislegt.

Inihald:

800 gr bleikjuflök
8 góðir humarhalar
2 gulrætur, smátt skornar
½ rauð paprika, brytjuð smátt
½ gul paprika, brytjuð smátt
1 stk nípa, skorin í sneiðar og soðin.
handfylli belgbaunir
¼  blómkálshaus, smátt skorinn
200 gr rifinn ostur
100 gr smjör
½  teningur af grænmetiskrafti
sítrónupipar
sletta af hlynsírópi
Aðferð:

Bleikjuflökin beinhreinsuð og skorin í hæfilega bita og krydduð með sítrónupipar. Pensluð með matarolíu og snögggrilluð á fiskigrind á hvorri hlið. Flökin lögð í álbakka. Humarinn skelflettur og garnhreinsaður.
Nípan hreinsuð og skorin í sneiðar og soðin með 2 matskeiðum af hlynsírópi.  Grænmetið svissað á pönnu í smjörinu með grænmetiskraftinum þar til það er orðið mjúkt.

Grænmetinu dreift yfir bleikjubitana í álbakkanum, humarhalarnir settir ofan á grænmetið og rifnum osti dreift yfir.

Setið álbakkann inn í grillið á lágum hita, lokið því og látið krauma um stund eða þar til osturinn er bráðnaður.

Berið fram með hrísgrjónum og köldum sósum að eigin vali. Safinn sem myndast í álbakkanum er líka einstaklega góður með.

 

Tengdar færslur

thumbnail
hover

Þorskur á ítalska vísu

Við erum líklega fæst vön því að elda þorsk á ítalskan máta, en það er svo sannarlega góð tilbreyting frá hefðbundnari ísl...

thumbnail
hover

Þorskur í hvítvíns- og tómatsósu

Þorskurinn er í uppáhaldi hjá ansi mörgum, enda hægt að matreiða hann óteljandi vísu. Hér kemur ein suðræn og þægileg uppskri...

thumbnail
hover

Lúða í brauð- og möndlumylsnu

Lúðan er drottning hafdjúpanna. Fáir eða engir fiskar verða stærri og hún er sveipuð mikilli dulúð og um hana eru til fjölmargar...