Hörpudiskur að hætti Rakelar Olsen

Nú er bjartara yfir mönnum í Stykkishólmi en um langan tíma. Tilraunaveiðar á hörpuskel hófust í vor og verður haldið áfram í haust eftir hlé í sumar. Veiðar á skelinni hafa legði niðri í rúman áratug vegna hruns stofnsins af völdum sýkingar, en nú er hann að ná sér á strik á ný. Því virðist sem þessar veiðar gætu hafist að einhverju marki í atvinnuskyni þegar á næsta ári. Í vor kom nokkuð af skel úr tilraunaveiðunum og komust menn þá á bragðið að nýju. Við hjónin nutum þess að fá skel með hrognapoka úr þessum veiðum hjá Símoni í Íslenskri bláskel og sjávargróðri og var hún algjört lostæti.
Hörpuskelin var uppstaðan í fiskvinnslu í Hólminum meðan allt lék í lyndi og um 8.500 tonn komu árlega í land þar og á Grundarfirði. Sigurður Ágústsson hf. var þá stærsti framleiðandi á hörpudiski á landinu, en fyrirtækið hefur um breytt um nafn og heitir nú Agustson. Stjórnarformaður þar er Rakel Olsen og hefur hún áratuga reynslu af veiðum, vinnslu og matreiðslu á hörpudiski. Við leituðum því til hennar eftir uppskrift og ábendingum um matreiðslu.
Innihald:
Hörpuskel, 6 til 10 bitar á mann, magn fer eftir því hvort um er að ræða forrétt eða aðalrétt og stærð bitanna
Laukur
Ferskt chilli
Olía til steikingar
Smá íslenskt smjör
Aðferðin:
„Einfaldleikinn er lykillinn að matreiðslu á hörpudiski, svo þetta góða hráefni fái að njóta sín,“ segir Rakel. „Ég léttsteiki til dæmis lauk mjög smátt skorinn og pínulítið af fersku chilli, einnig smátt skorið, í ólívuolíu. Svo dembi ég hörpudiskinum á pönnuna í augnablik og krydda smávegis með salti og pipar. Síðan hef ég sett aðeins íslenskt smjör saman við. Áður en ég geri þetta hef ég verið búin að skera niður epli og avokado í mjög þunnar sneiðar. Raðað því í lögum á breytt fat og skellt svo hörpudiskinum yfir eftir að hann er tilbúinn. Svo er gott að hafa baguettebrauð eða hvítlauksbrauð með eða bara salat.
Þetta er bara eitthvað svona sem ég hef fundið upp úr mér eftir að ég fór að fá hörpudiskinn aftur.
Ég er sem minnst að eiga við hann og passa að ofelda hann ekki. Hörpudiskur er algjört lostæti ef hann er ekki yfireldaður og ekki haft of mikið með honum. Hörpudisk elda ég yfirleitt ekki fyrr en fólk er nánast sest til borð. Ég set hann ekki í blandaða rétti eða baka inni í ofni. Mér finnst það ekki spennandi. Bara á pönnuna og aðeins smjör í restina. Þá ertu að fá þetta fína bragð sem þú ert að fá af fiski.“
En hefur hörpudiskurinn verið á borðum Rakelar í miklum mæli. „Maður gefur ekki bakarabörnum brauð, segir einhvers staðar. Ég hef aldrei verið neitt voðalega hrifin af hörpudiski, en það merkilega er að núna, eftir að hann er að koma aftur, er ég orðin virkilega sólgin í hann,“ segir Rakel.