-->

Jólasíldin

Fyrir marga tilheyrir síld jólahlaðborðum, jólum og áramótum. Líklega frekar þeim sem komnir eru komnir til nokkurs þroska og hafa alist upp við síld á margvíslegan hátt, allt frá gaffalbitum til síldarsalata af ýmsu tagi, en þeim sem yngri eru.  Síldin hefur lengi skipt okkur Íslendinga miklu máli og réðst efnahagur þjóðarinnar af síldveiðum langt fram eftir síðustu öld, enda gekk hún undir nafninu silfur hafsins. Á sínum tíma var síldin matur fátæka fólksins, en það hefur breyst. Nú er síldin nær eingöngu borðuð upp úr krukkum, oftast sem einhvers konar veislukostur.

Ekkert mál er að nálgast góða síld á krukkum í matvöruverslunum, en stundum langar mann til að gera hlutina eftir eigin höfði og leika sér svolítið með matinn, þó það hafi reyndar alltaf verið bannað. Þannig er einfalt að kaupa sér krukku af maríneraðri síld eða kryddsíld og gera úr síldinni salat eftir eigin höfði.
Við Helga höfum gaman af slíku og hér fara á eftir tvær uppskriftir frá okkur. Okkur finnst líka gaman að mála og skreyta krukkurnar, sem við setjum síldina í og berum fram í. Þannig gerir maður afurðina enn meira að sinni eigin og eykur á  hátíðleikann. Svo er krukkusíld utan kvóta.
Konungleg rifsberjasíld

Um 400 gr kryddsíld í bitum eða flökum

200 g rifsberjahlaup
2 dl tómatkraftur
1-2 rauðlaukar
1 msk relish
1/2-1 dl dilledik
pipar
estragon
rifsber til skrauts
Saxið lauk og pressið hvítlaukinn. Blandið saman rifsberjahlaupi, tómatkrafti, lauk, hvítlauk, relish og ediki. Kryddið með pipar og estragon. Ef um flök er að ræða skerið þau í hæfilega bita og látið í krukku. Hellið leginum yfir og geymið í 2-3 sólarhringa.
Gott er að bera síldina fram í sósunni og þegar á brauðið er komi að skreyta með vænum skammti af rifsberjum.
Karrýsíldarsalat
Um 300 gr maríneruð síld, flök eða bitar
1 epli
4 ananashringir
1 dl majones
1 dl sýrður rjómi
karrýduft
Skerið síldina í bita, ef um flök er að ræða, skerið ananasinn í bita og flysjið eplið og skerið í bita. Hrærið saman majones og sýrðan rjóma með svolitlu af ananassafa og kryddið með karrý eftir smekk. Sósunni er síðan hrært saman við síldina, ananasbitana og eplabitana.
Meðlæti með báðum salötunum gæti verið gróft brauð, kartöflur, graslaukur eða hvað sem hver og einn kann að óska sér.
Danir myndu fá sér øl og snaps líka.