Loðnuleiðöngrum seinkar

Rannsóknaskipið Bjarni Sæmundsson lagði af stað í loðnuleiðangur fyrir helgina, 11 dögum seinna en áætlað var. Ástæða seinkunarinnar var bilun í einni af þremur stjórntölvum fyrir vélar skipsins. Stýrisbúnaður þess er frá árinu 2004 þegar aðalvélar skipsins voru endurnýjaðar og gekk erfiðlega að fá varahluti. Að endingu náðist að gera bráðabirgðalagfæringu og koma skipinu af stað samkvæmt frétt frá Hafró. Þar segir ennfremur:

„Ljóst er að skipta þarf út öllum þremur stjórntölvunum í Bjarna Sæmundssyni og er vinna við það þegar hafin. Skipið kom nýtt til landsins í desember 1970 og er því að verða 47 ára gamalt.

Tölvubúnað fyrir aðalvél Bjarna Sæmundssonar þarf að endurnýja.

Tölvubúnað fyrir vélar Bjarna Sæmundssonar þarf að endurnýja.

Þegar aðalvélarnar voru endurnýjaðar árið 2004 var fyrirhugað að gera skipið út í 10-12 ár til viðbótar. Ýmiskonar búnaður og tæki, innréttingar o.fl. var því ekki endurnýjað á þeim tíma. Á þeim þrettán árum sem eru liðin hefur eldri búnaður látið enn meira á sjá og nýi búnaðurinn er ekki mjög nýr lengur eins, og þessi bilun hefur berlega leitt í ljós.

Brýnt er að hið fyrsta verði tekin ákvörðun um nýsmíði á rannsóknaskipi í stað Bjarna Sæmundssonar þannig að í framtíðinni verði tryggt að hægt verði að sinna með öruggum hætti mikilvægum rannsóknum á auðlindum hafsins. Slíkt öryggi er því miður ekki tryggt með núverandi skipakosti Hafrannsóknastofnunar.

Hitt skip stofnunarinnar, rannsóknaskipið Árni Friðriksson, hefur verið í loðnuleiðangri í lögsögu Jan Mayen frá því í byrjun mánaðarins og er nú á suðurleið með austurströnd Grænlands.

Bjarni mun sinna mælingum á hafsvæðinu fyrir vestan og norðan land á móti Árna. Leiðöngrum rannsóknaskipanna átti að ljúka 29. september en vegna bilunarinnar lýkur þeim ekki fyrr en 4. október.

Ekki er hægt að lengja leiðangrana frekar þar sem Árni fer í haustrall í byrjun október og Bjarni í rækju- og ungsíldarrannsóknir. Gert er ráð fyrir að hægt verði að fara yfir fyrirhugað rannsóknasvæði þó þéttleiki mælinga verði minni en ella. Seinkunin hefur haft mikil áhrif á fjölda starfsmanna Hafrannsóknastofnunar þar sem hátt í 50 manns taka þátt í loðnuleiðöngrunum. Einnig hefur seinkun á haustralli og rækju nokkur áhrif þó minni séu.“

Myndin af Bjarna er fengin af skipa- og bátasíðunni http://skoger.123.is/

 

 

Attachments

Tengdar færslur

thumbnail
hover

Leiðindaveður á loðnumiðunum

Íslensku loðnuskipin voru að fá ágæt köst á föstudag og laugardag en í gær var erfitt að kasta vegna leiðindaveðurs. Flotinn v...

thumbnail
hover

Fullbúið uppsjávarskip eftir breytingarnar

Á dögunum lauk hjá Slippnum Akureyri ehf. viðamiklum breytingum á uppsjávarskipinu Jóni Kjartanssyni SU 111 sem er í eigu Eskju hf. ...

thumbnail
hover

Illa gengur að ná ufsanum

Á sl. þremur fiskveiðiárum hafa veiðar á ufsa vikið langt frá útgefnum veiðiheimildum.  Um 35 þúsund tonn vantar upp á fulla n...