Mjög góð gullkarfaveiði á fjöllunum

Skip HB Granda komu eitt af öðru til hafnar í vikulokin vegna sjómannadagsins sem haldinn er hátíðlegur í dag. Á föstudagsmorgun kom Höfrungur III AK til hafnar í Reykjavík eftir 29 daga úthald og eina millilöndun og var aflinn rúm 900 tonn upp úr sjó.

,,Við byrjuðum veiðiferðina á grálúðuslóð í Víkurálnum en náðum takmörkuðum árangri vegna þess að við lentum í brasi með veiðarfærin. Þá kom töluvert á óvart að mikið af þorski var að flæða yfir svæðið og það truflaði okkur enda voru þorskveiðar ekki á dagskránni,“ segir Haraldur Árnason skipstjóri í samtali við heimasíðu HB Granda.

Úr Víkurálnum var haldið norður á Halann en þar var þá karfa- og ufsaveiði.

,,Við vorum töluverðan tíma á Halanum og fengum góðan afla. Sérstaklega var ufsaveiðin góð og við vorum að fá mikið af stórum og góðum ufsa. Frá Halanum færðum við okkur austur í Reykjafjarðarál. Þar var góð ýsuveiði en hún stóð ekki nema í nokkra daga.“

Síðasta þriðjungi veiðiferðarinnar var varið í veiðar á suðvesturmiðum.

,,Við vorum í Skerjadjúpinu og á Fjallasvæðinu. Það er búin að vera mjög góð gullkarfaveiði á Fjöllunum og þar fengum við bæði karfa og ufsa. Þetta er of seint til að reyna við djúpkarfa í Skerjadjúpinu. Það gerir maður í febrúar og eitthvað fram í apríl og svo ekki aftur fyrr en síðla hausts,“ segir Haraldur Árnason.

 

 

Tengdar færslur

thumbnail
hover

Ræða sameiningu Vísis og Þorbjarnar

Eigendur sjávarútvegsfyrirtækjanna Vísis hf. og Þorbjarnar hf. hafa hafið viðræður um að leggja eignir félaganna inn í nýtt fyr...

thumbnail
hover

Fer í draumafríið um jólin

Maður vikunnar að þessu sinni er borinn og barnfæddur Dalvíkingur. Fyrsta launaseðilinn fékk fyrir útskipun á rækju hjá Söltunar...

thumbnail
hover

Bergey orðin blá

Bergey VE hefur verið seld Guðmundi Runólfssyni hf. í Grundarfirði og verður skipið afhent hinum nýja eiganda á næstu dögum og mu...