Mjög góður gangur í veiðunum

„Það hefur verið mjög góður gangur í veiðunum, jafnt hjá frystitogurunum sem og ísfisktogurunum. Til marks um það get ég nefnt að frystitogararnir þrír voru með 1.200 milljón króna aflaverðmæti í júnímánuði og aflaverðmæti Örfiriseyjar RE í síðustu tveimur túrum, á alls 77 úthaldsdögum, nam einum milljarði króna.“

Þetta segir Birkir Hrannar Hjálmarsson, útgerðarstjóri togara HB Granda í samtali á heimasíðu félagsins. Að sögn Birkis voru bæði Örfirisey og Vigri RE að veiðum í Barentshafi en bæði skip fóru ekki þangað norður fyrr en eftir sjómannadaginn. Komið hefur fram á vefnum að það tók Vigra sex sólarhringa að komast á miðin þannig að skipin voru ekki nema um 20 daga á miðunum í júnímánuði. Höfrungur III AK var á sama tíma á heimamiðum og var aflinn að uppistöðu grálúða en einnig þorskur og ufsi. Heildarafli skipsins í síðasta túr var tæplega 600 tonn upp úr sjó.

,,Það hefur einnig gengið mjög vel hjá ísfisktogurunum. Við erum bara með tvo ísfisktogara í rekstri nú þegar Engey RE er farin og Helga María AK er í leiguverkefni á Grænlandi. Pressan á áhafnir Akureyjar AK og Viðeyjar RE er því meiri en ella en við erum búnir að stilla því þannig upp að ísfisktogararnir munu landa þrisvar sinnum í viku. Þeir voru með 1.550 tonna afla í júnímánuði og það verður ekkert slegið af í vinnslunni,“ segir Birkir Hrannar Hjálmarsson.

 

 

Tengdar færslur

thumbnail
hover

Dregur úr löndun VS-afla

Landanir á svokölluðum VS-afla hafa farið minnkandi á síðustu árum. Á tímabilinu 2012-2013 til 2017-2018 var landaður VS-afli rú...

thumbnail
hover

Fyrstu nemendurnir ljúka stjórnendanámi

  Fyrstu nemendurnir til að ljúka 5. og síðustu lotu stjórnendanáms á vegum Símenntunar Háskólans á Akureyri tóku við skí...

thumbnail
hover

Stoppað í gat á sjókví

Matvælastofnun barst tilkynning frá Arnarlaxi (Fjarðalaxi) föstudaginn 16. ágúst um gat á nótarpoka einnar sjókvíar Arnarlax við ...