Ofmenntun!!!

Á dögunum mátti lesa frétt um það að ofmenntun væri að finna í störfum við fiskveiðar. Sjálfsagt hafa margir hrokkið við, enda vandséð að einhver maður geti í raun verið „ofmenntaður“. Vísað var til nýrrar greiningar frá Hagfræðistofnun Háskóla Íslands á íslenskum vinnumarkaði. Svo hljóðar upphaf pistils á heimasíðu Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi.

En hvað skildi leynast bak við þetta orð, á hverju byggist það? Segir svo í greiningu Hagfræðistofnunar: Til að leggja mat á hvort maður innan tilteknar starfstéttar sé van- eða ofmenntaður var kannað hvort árafjöldi viðkomandi í skóla væri minna eða meira en einu staðalfráviki frá meðaltali árafjölda í skóla fyrir viðkomandi starfstétt. Ef maður hefur varið færri árum í skóla en sem nam meðaltali að frádregnu einu staðalfráviki skilgreinist hann sem vanmenntaður, en ofmenntaður ef hann hafði varið fleiri árum í skóla en sem nam meðaltali að viðbættu einu staðalfráviki.“ Það er að segja, að sá sem hefur lengri menntun að baki en meðaltalið kveður á um, er „ofmenntaður“.

Nú er hægt að láta sér detta ýmislegt í hug þegar maður heyrir orðið „ofmenntun“ og hvernig hún er tilkomin. Ef til dæmis maður með próf í stjórnmálafræði verður háseti á báti, þá verður hann væntanlega skilgreindur „ofmenntaður“ vegna hugsanlegrar menntunnar umfram aðra háseta. Rétt er að benda á að sjávarútvegurinn hefur gert mikið á undanförnum árum til að bæta menntun og færni starfsmanna. Fyrirtæki í sjávarútvegi hafa á undanförnum árum hvatt starfsmenn sína til að fara í raunfærnimat sem hefur orðið hvatning fyrir marga til að sækja sér frekari menntun til dæmis innan Fisktækniskólans eða Tækniskólans. Einnig eru fyrirtækin öflug í að sækja í starfsmenntunarsjóði fræðslustyrki vegna fræðslu fyrir sitt starfsfólk.  Við þessar aðstæður gæti mæld „ofmenntun“ því endurspeglað mikilvæga framför í greininni. Vakin skal athygli á því að ef eftirsókn eftir fræðslu yrði nógu útbreidd meðal starfsmanna sjávarútvegsins þá gæti það leitt til þess að ofmenntun í greininni hyrfi eins og dögg fyrir sólu, mælt á þennan mælikvarða.

En hvað sem öllum skilgreiningum líður finnst orðið „ofmenntun“ ekki í orðasafni Árnastofnunar. Það hlýtur að vekja ákveðnar spurningar um á hversu traustum grunni þetta orð hvílir. Það má í framhjáhlaupi vitna til orða fyrrverandi rektors Háskóla Íslands, dr. Páls Skúlasonar heimspekings, um menntun. Hann sagði að menntun væri þroski, eða fullkomnun þeirra eiginleika sem mönnum eru eðlislægir: „Að menntast er þá að verða meira maður – ekki meiri maður – í þeim skilningi að þær gáfur eða eiginleikar sem gera manninn mennskan fái notið sín, vaxi og dafni eðlilega.“

Það má sannarlega taka undir með fyrrverandi rektor. Og hvað sem „ofmenntun“ líður, munu íslensk sjávarútvegsfyrirtæki örugglega hvetja sína starfsmenn áfram til að mennta sig og í raun alla, ef út í það er farið.

 

Tengdar færslur

thumbnail
hover

Gylfi hættir sem forstjóri Eimskips um...

Stjórn Eimskipafélags Íslands hf. og forstjóri félagsins Gylfi Sigfússon hafa komist að samkomulagi um að Gylfi láti af störfum se...

thumbnail
hover

Flytur erindi um plast í þorski...

Föstudaginn 23. nóvember kl. 11:00 mun Anne de Vries flytja erindi á málstofu Hafrannsóknastofnunar. Erindið mun fjalla um mælingar A...

thumbnail
hover

Samdráttur í útflutningi frá Færeyjum

Útflutningur sjávarafurða frá Færeyjum dróst saman á fyrstu níu mánuðum ársins um 15% í verðmæti og 8% í magni. Heildarverðm...