-->

Ofnbakaður saltfiskur með beikoni

Nú er komið að fiskiveislu fyrir þrettándann. Upplagt að ljúka hátíðunum með góðri fiskmáltíð. Kannski finnst einhverjum að verið sé að bera í bakkafullan lækinn með því að hafa saltfisk, svona ofan í hamborgarhrygginn og hangikjötið, en fiskinn má vissulega útvatna eftir þörfum og smekk. Söltun á fiski og öðrum matvælum er frá alda öðli geymsluaðferð en vissulega verkast fiskurinn í saltinu og það gerir hann svo sérstakan. Fyrr á öldum höfðu Íslendingar ekki yfir salti að ráða til fiskverkunar og því var allur fiskur þurrkaður og fluttur utan sem  skreið. Þegar saltið kom svo til sögunnar var skotið enn styrkari stoðum undir fiskvinnslu og útflutning og allt þar til hraðfrystingin kom til sögunnar um miðja síðustu öld var saltfiskur helsta útflutningsafurð Íslendinga.

Helga fór á veiðar í uppskriftasafninu sínu og fann þar þessa fínu aðferð við að elda saltfiskinn. Hún er upprunnin úr bókinni Eldum íslenskt með kokkalandsliðinu. Uppskriftin er miðuð við fjóra.

Innihald:

800 g saltfiskur
2 cm engiferrót
1 stk. blaðlaukur
100 g íslenskur cheddar-ostur
12 sneiðar beikon (stökksteikt)
40 g smjör
40 g hveiti
300 ml mjólk

Aðferð:

Bræðið smjörið í potti.  Hrærið hveitið út í smjörið og látið malla við við lágan hita í 5 mín. Bætið mjólkinni út í og hrærið með písk. Rífið engiferrótina saman við. Skerið fiskinn í bita sem og blaðlaukinn. Setjið fisk í eldfast mót, raðið blaðlauknum ofan á, hellið smá sósu, rífið cheddar-ost yfir og leggið loks beikonsneiðarnar ofan á. Eldið við 180°C í 30 mín. með álpappír og svo í 10 mín. Án álpappírs til að brúna ostinn. Gott er að rífa tvö hvítlauksrif með engiferrótinni fyrir þá sem vilja enn meira bragð.
Meðlæti getur hver og einn valið eftir smekk og kenjum.  Við mælum með fersku salati og soðnum kartöflum.  Spánverjar drekka gjarnan rauðvín með saltfiski og það gerum við líka, svona til hátíðabrigða.