-->

Pönnusteikt bleikja

Fiskeldi er að vaxa fiskur um hrygg á ný hér á landi. Bleikjan er sá fiskur sem enn er umsvifamestur í eldinu, en Íslendingar eru stærstu framleiðendur heims á bleikju. Bleikjan er einstaklega hollur og góður fiskur, sem alinn er í einu tærasta og besta vatni heims við lágt hitasig. Hún myndar mun minna fitulag undir roðinu en laxinn og er fyrir vikið eftirsóttari matur en laxinn hjá mörgum. Íslenska bleikjan er að langmestu leyti flutt utan, bæði til Evrópu og Ameríku og fer beint á betri matsölustaði og í verslanir Whole Foods og nýtur mikilla vinsælda hjá þeim sem komast á bragðið. Bleikjan er hins vegar vel þekkt hér heima og hafa líklega flestir sem í sveit voru sendir á yngri árum vanist því að borða bleikju, sem veiðist um allt land í ám og vötnum. Okkur Helgu finnst bleikjan afbragðsgóður matur og eldum hana oft. Best finnst okkur hún pönnusteikt og höfum við þróað eftirfarandi aðferð við eldamennskuna. Uppskriftin er hugsuð fyrir fjóra.

Innihald:
1.200 gr bleikjuflök með roði
½ bolli möndluflögur eða furuhnetur
100 gr sveppir
100 gr púrrulaukur
100 gr rækja
Sítróna
Agúrka
Tómatar
Nokkrir aspasbitar
Sítrónupipar
Smjörlíki
Smjör
Aðferðin:
Flökin eru beinhreinsuð ef þess er þörf og þau þvegin upp úr köldu vatni og þerruð. Þá eru flökin skorin í hæfilega bita, ef þau eru í stærra lagi og krydduð með sítrónupipar á báðum hliðum. Bleikjan er síðan steikt upp úr snarpheitu smjörlíki, fyrst á holdhliðinni í stutta stund eða þar til fiskurinn verður gullinn. Þá er steikt á roðhliðinni nokkuð lengur þannig að roðið verði stökkt, en þá finnst sumum gott að borða það með fiskinum, en aðrir sleppa því. Á meðan bleikjan er að steikjast eru sveppirnir skornir í þunnar sneiðar og púrrulaukurinn sömuleiðis og þetta steikt á pönnu. Möndlurnar eða furuhneturnar eru ristaðar á þurri pönnu. Mesta vatninu er þrýst úr rækjunni í sigti. Þegar bleikjan er orðin fullsteikt fara rækjurnar, laukur og sveppir út á pönnuna og loks fara möndlurnar eða furuhneturnar út á fiskinn, sem er skreyttur með sítrónu-, tómata- og agúrkusneiðum.
Þetta berum við svo fram með bræddu smjöri með aspasbitum í, soðnum kartöflum og salatblöndu eftir eigin vali og kenjum. Gott kalt hvítvín fer mjög vel með þessum rétti.