-->

Reyktur áll og humar

reyktur állNú eru áramótin að nálgast og enn eins veislan framundan. Við Helga fórum því að velta því fyrir okkur hvaða fiskmeti væri gott að hafa í matinn, svona eftir kjötveislu jólanna. Reyktur áll og humar komu strax upp í hugann. Állinn sem forréttur og humarinn sem aðalréttur. Við fáum okkur stundum ál og höfum ýmist fengið hann austan frá Hornafirði, hjá Sægreifanum eða í Nóatúni. Það er reyndar stundum erfitt að fá þetta góðmeti en ein leiðin er, að séu menn á ferðum um flugvellina á Kastrup eða Schiphol, er upplagt að kaup sér nokkrar pakkningar af ál en þær má frysta og geyma í nokkurn tíma. Reyndar er það sama með ál og annað góðmeti eins og humar, það á ekki að spara um of. Löng geymsla rýrir gæðin. Ritstjóri kvótans smakkaði ál í fyrsta skipti á Schiphol fyrir rúmum fjórum áratugum og kolféll fyrir honum.

Ef við byrjum á álnum er framreiðslan frekar einföld. Við notum gróft brauð eins og óseytt rúgbrauð eða danskt rúgbrauð. Smyrjum það og leggjum salatblað á það. Við gerum eggjahræru og magnið í hana fer einfaldlega eftir fjölda þeirra sem kræsingarnar borða, fyrir okkur tvö notum við þrjú egg. Hræruna má krydda smávegis en ekki um of svo hún steli ekki senunni frá álnum. Állinn er skorinn í hæfilega bita og raðað á brauðið. Eggjahrærunni er svo dreift yfir álinn og höfð til hliðar, en gott er að hafa nóg af henni. Þá er graslaukur saxaður yfir eftir smekki. Gott er að drekka öl og hafa snafs með.
Við hjónin eru líka afskaplega hrifin af humri, sem auðvitað er algjör veislumatur. Við matreiðum hann á ýmsan hátt en grillaður humar með hvítlauk er algjört lostæti. Þó við höfum okkar ýmsu aðferðir við matreiðsluna fórum við á veiðar á netinu og fundum þessa uppskrift á heimasíðunni eldhussogur.is  en hún mun vera ættuð frá Fiskikónginum og er fyrir fjóra:

Hvítlaukssmjör:

 • 1 rauður chilipipar, fræhreinsaður
 • 1 búnt steinselja
 • 2-3 heilir hvítlaukar, afhýddir (já, þú last rétt!), gott að nota solo-hvítlaukana sem koma í heilu.
 • 500 g smjör, við stofuhita
 • 1 msk maldonsalt
 • reykt paprikuduft á hnífsoddi
 • svartur pipar úr kvörn

Allt sett saman í matvinnsluvél.

Humar:

 • 2 kg humar, helst stór eða millistór
 • hvítlaukssmjör (sjá uppskrift ofar)
 • 1.5 dl hvítvín
 • 1.5 dl rjómi
 • maldonsalt
 • svartur pipar úr kvörn

Humar sem á að bera fram um kvöldmataleytið er gott að taka úr frysti upp úr hádegi og vinna hann hálffrosin upp úr köldu vatni. Hann þiðnar fljótt og það er ekki gott að hafa hann þiðinn alltof lengi, þá dökknar hann. Humarinn klipptur upp eftir bakinu, svarta röndin hreinsuð úr honum undir köldu rennandi vatni, hann síðan þerraður með viskustykki og kjötið lagt upp á bakið (hann á samt að hanga fastur á halaendanum). Hvítlaukssmjöri makað á humarinn, ekki spara það! Humrinum raðað í eldfast mót, rjóma og hvítvíni hellt yfir (á þessum tímapunkti setti ég plastfilmu yfir formið og geymdi í kæli í 3 tíma þar til að tímabært var að elda humarinn) Grillað í ofni við 225 gráður í u.þ.b 3-4 mínútur. Þegar humarinn er tekinn úr ofninum hefur dálítið af smjörinu bráðnað ofan í hvítvínið og rjómann og myndað ljúffenga sósu. Humarinn borinn fram á disk og sósunni hellt yfir. Nauðsynlegt er að bera fram ristað brauð eða hvítlauksbrauð með humrinum til þess að dýfa ofan í sósuna.