-->

Saltfiskveisla að spænskum hætti

Nú fer vetrarvertíð að nálgast og mikið verður dregið úr sjó af rígaþorski. Stóri þorskurinn hentar best í söltun og fátt er betra í matinn en góður saltfiskur. Okkur, sem eru alin upp á saltfiski með hamsatólg og soðnum kartöflum, hefur síðari árin verið kærkomin nýlunda að kynnast nýjum aðferðum við eldamennskuna á saltfiskinum og rifja þannig upp á ný kynnin við þetta frábæra fiskmeti. Þegar hún Helga fer að grúska í uppskriftasafninu kemur ýmislegt í ljós. Ekki liggur alveg ljóst fyrir hvaðan uppskriftirnar allar eru komnar, en þær sem við bjóðum upp á nú, höldum við að séu ættaðir frá hinu gamla góða SÍF, þegar það var og hét. Við leggjum hér til forrétt og aðalrétt að hætti Spánverja, exqueixada de bacalao og brandada de bacalao, og loks sjómannakaffi í eftirrétt. Sannkölluð veisla.

Saltfisksalat fyrir átta:
750 gr saltfiskur
6-8 tómatar
1-2 laukar
100 gr ólívur
½ græn paprika
Lítið búnt steinselja
1 dl sérríedik
1½ dl jómfrúrólívuolía
Svartur pipar úr kvörn
Stökkt fínskorið icebergsalat
Aðferð:
Salfiskurinn þarf að vera hæfilega útvatnaður. Hann er rifinn eða fínt skorinn í þunna litla bita. Hann er svo lagður í skál ofan á salatið. Vel af svörtum pipar stráð yfir. Laukur og paprika hökkuð smátt og stráð yfir. Edikinu og olíunni er blandað saman og því hellt yfir. Tómatarnir skornir í bita og maukaðir í matvinnsluvél og hellt yfir. Að lokum er steinseljunni stráð yfir.  Gott með ristuðu brauði.
Gratíneraður saltfiskur fyrir átta:
Kíló saltfiskur
½ kíló kartöflur, soðnar, flysjaðar og maukaðar
1 hvítlaukur
1 tsk svartur mulinn pipar
½ hituð mjólk
Smjör til steikingar
Salt eftir smekk
150 gr rifinn ostur
8 franskbrauðsneiðar steiktar í olíu eða smjöri
Aðferð:
Setjið saltfiskinn í kalt vatn og hitið að suðu. Látið hann svo malla á mjög vægum hita í tíu mínútur. Hellið vatninu síðan af honum og roð- og beinhreinsið ef þörf er á. Leysið hann síðan upp í flögur og blandið saman við maukaðar kartöflurnar. Steikið hvítlaukinn í smjörinu við lágan hita þar til hann verður gullinn. Hrærið hvítlauknum saman við saltfiskinn og kartöflurnar og hrærið síðan mjólkina varlega út í svo úr verði hæfilega þykkt mauk og kryddið með salti og pipar.
Setjið það síðan í eldfast mót og stráið ostinum yfir. Bakið þar til þar til rétturinn er orðinn gullinbrúnn. Berið fram með brauði steiktu í ólívuolíu á pönnu.

Sjómannskaffi
Þá er komið af eftirréttinum sem setur punktinn yfir iið.
½ lítri gott brandí eða romm
50 gr sykur
Börkur af einni appelsínu
Börkur af einni sítrónu
1 góð kanilstöng
1 l af nýlöguðu kaffi
1 msk kaffibaunir

Hitið brandíið í grunnum víðum potti, helst úr leir, með kanil og appelsínu- og sítrónuberki. Þegar brandíið er orði heitt er borinn eldur að því, en hann slökktur strax með því að hella kaffinu útí. Bætið kaffibauum út í og berið fram í góðum bollum.
Þetta er alvöru veisla og eins og áður hefur komið fram drekka Spánverjar gott rauðvín með svona kræsingum. Hver hefur sinn sið en það fer ekki hjá því að sú spurning vakni af hverju erum við ekki löngu flutt til Spánar?