-->

Samgrónir við sjómennsku og sögu Grundarfjarðar

Tveir gamalgrónir sjómenn voru heiðraðir á sjómannadaginn í Grundarfirði. Um þá segir svo í heiðursræðu sjómannadagsins í Grundarfirði:

Í dag heiðrum við tvo menn sem eru samangrónir við sögu sjómennskunnar og sögu Grundarfjarðar. Leiðir þeirra hafa legið saman frá því þeir muna eftir sér. Fyrst á bryggjunni svo á sjónum. Saman bjuggu þeir í herbergi í Stykkishólmi þegar þeir voru í unglingadeild, leigðu svo herbergi þegar þeir voru saman í Stýrimannaskólanum í Reykjavík og útskrifuðust þeir saman þaðan árið 1969. Saga þeirra er áþekk. Pabbar þeirra voru skipstjórar og útgerðarmenn og framtíð þeirra var skrifuð!
Þeir urðu sjómenn og skipstjórar við fjölskylduútgerðirnar.
Þeir eru það samstíga að þeir fluttu konurnar sínar meira að segja á sama tíma í bæinn árið 1970.
Runólfur Guðmundsson, betur þekktur sem Runni, er fæddur 12. maí 1948. Hann fór fyrst á sjóinn norður á Siglufjörð á síld á Runólfi SH með pabba sínum. Líklega var þetta ráðstöfun til að létta á heimilinu fyrir mömmu hans því hann segist líklega hafa verið ónothæfur þessa fyrstu túra. Fyrsta skipstjórastaðan hans var á Ásgeiri Kristjánssyni árið 1971. Eftir það tók við stýrimannstaða á Runólfi undir stjórn þeirra Þorvalds Elbergssonar og Björns Ásgeirssonar.
Kaflaskilin verða svo þegar togarinn Runólfur kemur nýsmíðaður árið 1975. Þá er Runni stýrimaður hjá Axeli Schiöt en tekur alfarið við skipstjórn Runólfs árið 1976 hjá fjölskylduútgerðinni. Runólfur er seldur úr landi á afmælisdaginn hans Runna árið 1998. Þar fer hann á Hring SH og er skipstjóri þar til í lok árs 2002. Og það voru 12 tonn af þorski í síðasta holinu. Þá fór hann í land og vann við útgerð fjölskyldunnar, sem hann er enn viðloðandi í dag. Og þar er enn bætt í eins og flestir vita.
Eins og komið hefur fram í fyrri heiðrunum þarf einhvern heima til þess að halda heimilinu í fullu swingi og það gerði Edda Svava Kristjánsdóttir. Þau giftu sig árið 1970, sama ár og Edda kemur til Grundarfjarðar. Edda fæddist á sjómannadag 1. júní 1947 og átti afmæli í gær, við óskum henni til hamingju með það. Frændi hennar hafði á orði þegar hún fæddist að hún myndi giftast sjómanni, sem þótti skrítið því það eru bara iðnaðarmenn í ættinni.
Edda sinnti verslunarstörfum og fiskvinnslustörfum samhliða barnauppeldi en þau Runni eiga tvö börn og 5 barnabörn.

Sigurjón Halldórsson, betur þekktur sem Jonni, er fæddur 21. september 1949. Hann fer fyrst á sjóinn með afa sínum á handfæri árið 1964. Eftir það tók við sjómennska hjá fjölskylduútgerðinni á Farsæl þar sem Jonni var undir stjórn Björns Ásgeirssonar á 60 tonna Farsæl, en svo tók við sjómennska undir stjórn pabba hans, Halldórs Sigurjónssonar, og voru þeir samskipa á Farsæl. Jonni var stýrimaður hjá Runna á Runólfi 1977 til 1978. Árið 1979 tekur Jonni alfarið við skipstjórn Farsæls og er þar við stjórnvölinn allt fram til ársins 2016. En þá hafði hann verið á 3 skipum með Farsæls nafnið og var Jonni skipstjóri á tveimur þeirra.
Jonni kynntist Hildi Sæmundsdóttur í gegnum frænku hans Jonna, sem líklega vildi koma þessum háa og myndarlega frænda sínum út, og gekk það eftir og giftust þau árið 1970, og flytur Hildur sama ár til Grundarfjarðar.

Hildur er fædd 22. júní 1948. Hún hóf störf 1. september árið 1974 sem ljósmóðir og það sem til féll við hjúkrunarstörf í Grundarfirði og líklega hefur oft verið nóg að gera.
Hildur kom að um 550 meðgöngum hjá Grundfirskum konum. Hildur starfaði við heilsugæslu Grundarfjarðar í 40 ár uppá dag! Hún hætti 1. september 2014. Jonni og Hildur eiga 4 börn og 11 barnabörn.

Þessi tvö heiðurshjón hafa sett svip sinn á bæjarmynd Grundarfjarðar! Það vita allir hver Runni og Edda eru, það þekkja allir Jonna og Hildi sama hvort það er í gegnum félagstörf, heimsóknir til vina sinna þar sem Edda og Hildur áttu líklega alltaf eitthvað í matinn. Það eru ófá símtölin sem Runni og Jonni hafa fengið frá stálpuðum unglingum til að biðja um pláss. Því það var gott að róa með þessum mönnum og plássin eftirsótt.
Við óskum þeim öllum innilega til hamingju.

 

Tengdar færslur

thumbnail
hover

„Maðurinn er mannveisla“

Maður vikunnar í dag starfar hjá Slippnum á Akureyri. Hann er þessa dagana að vinna í verkefnastjórnun fyrir næsta vinnsluþilfar, ...

thumbnail
hover

Nýr Áskell á heimleið

Nýr Áskell ÞH 48 hefur verið afhentur Gjögri hf. Í Noregi og er væntanlegur til Grindavíkur á mánudaginn kemur. Þann 25. septembe...

thumbnail
hover

Annir í Sjávarklasanum

Síðustu dagar í Sjávarklasanum hafa verið annasamir við móttöku gesta. Gestir frá Kyrrahafinu með sjávarútvegsráðherra Fiji í...