Snöggsteiktur hörpudiskur með spergli og litlum blaðlauk

Nú er það veisla. Tilraunaveiðar á hörpudiski hefjast á ný í haust og því upplagt að vera með uppskrift að hörpudiski. Við leituðum til fagmanns í matreiðslu því uppskriftin er upp úr bókinni Sæludagar með kokki án klæða, Jamie Oliver. Þar er að finna mikið af góðum uppskriftum.

„Ég hef rekist á nokkrar algjörar opinberanir, sem mig langar til að segja ykkur frá. Fyrst er, að með því að skera kross í hörpudisk á annarri hliðinni þá opnast hann eins og fallegt blóm þegar hann er snöggsteiktur og þegar smá sósu er dreypt á hann sýgur hann hana í sig. Í öðru lagi þá er smávegis af fimm-kryddi algjör nautn með skávarréttum,“ segir Jamie. Við tökum undir með honum. Þetta er virkilega flottur réttur, vel til þess fallinn að njóta á rómantísku haustkvöldi með ástvini sínum.

Innihald:

16 sperglar, afhýddir og skorið neðan af
12 litlir blaðlaukar
góð ólífuolía
sjávarssalt og nýmalaður svartur pipar
1 hnefi ný kryddmæra, bara blöðin
1 sítróna
12 vænir hörpudiskar
tvisvar sinnum á milli fingra af fimm-kryddi
smjör

Aðferð:

Snöggsjóðið spergilinn og blaðlauk í sjóðandi, söltu vatni í tvær mínútur eða þar til þetta er hæfilega mjúkt og látið vatnið renna af. Dreypið ólífuolíu í stóra pönnu, sem ekki festist við. Látið spergil og blaðlauk stikna í olíunni í nokkrum umferðum, hafið ekki meira í pönnunni en að grænmetið sé bara í einu lagi. Saltið og piprið og látið grænmetið taka smá lit allt um kring. Setjið grænmetið í skál og rífið helminginn af jurtunum yfir. Kreistið smá sítrónusafa yfir. Látið standa meðan þið steikið hörpudiskinn.

Hitið sömu pönnuna vel, ristið kross í hörpudiskinn öðru megin án þess að skera nema hálfa leiðina í gegnum hann, saltið og piprið báðar hliðarnar og stráið fimm-kryddinu yfir. Skvettið ólífuolíu í pönnuna og látið hörpudiskinn stikna í um tvær mínútur þar til hann er gullinn, snúið honum við, bætið afganginum af jurtunum í og látið stikna í mínútu í viðbót.

Meðan hörpudiskurinn er að stikna skiptið þá blaðlauknum og sperglinum milli fjögurra heitra diska. Takið pönnuna af hitanum og bætið 2 smjörklípum og safa úr ½ sítrónu í pönnuna. Látið þetta blandast vel á pönnunni og setjið síðan 3 hörpudiska og ögn af sósunni á hvern disk. Berið strax fram og takið til óspilltra málanna.

Tengdar færslur

thumbnail
hover

Ýsa að hætti V-12

Ýsa er yndislegur fiskur. Einstakur matfiskur með hlutlausu bragði, sem tekur vel við nánast hvaða kryddi sem er. Þessi uppskrift var...

thumbnail
hover

Steiktur þorskur með grænni sósu

Þorskurinn er kallaður ýmsum nöfnum. Algengt er að segja „sá guli“ um þennan góða fisk. Hér fáum við hins vegar útgáfu af ...

thumbnail
hover

Hendið svo fiskinum!

Í tilefni hrekkjavökunnar bregðum við út af vananum og sláum þessu upp í svolítið grín. Uppskriftir að fiskréttum geta verið m...