Snöggsteiktur hörpudiskur með spergli og litlum blaðlauk

Nú er það veisla. Tilraunaveiðar á hörpudiski hefjast á ný í haust og því upplagt að vera með uppskrift að hörpudiski. Við leituðum til fagmanns í matreiðslu því uppskriftin er upp úr bókinni Sæludagar með kokki án klæða, Jamie Oliver. Þar er að finna mikið af góðum uppskriftum.

„Ég hef rekist á nokkrar algjörar opinberanir, sem mig langar til að segja ykkur frá. Fyrst er, að með því að skera kross í hörpudisk á annarri hliðinni þá opnast hann eins og fallegt blóm þegar hann er snöggsteiktur og þegar smá sósu er dreypt á hann sýgur hann hana í sig. Í öðru lagi þá er smávegis af fimm-kryddi algjör nautn með skávarréttum,“ segir Jamie. Við tökum undir með honum. Þetta er virkilega flottur réttur, vel til þess fallinn að njóta á rómantísku haustkvöldi með ástvini sínum.

Innihald:

16 sperglar, afhýddir og skorið neðan af
12 litlir blaðlaukar
góð ólífuolía
sjávarssalt og nýmalaður svartur pipar
1 hnefi ný kryddmæra, bara blöðin
1 sítróna
12 vænir hörpudiskar
tvisvar sinnum á milli fingra af fimm-kryddi
smjör

Aðferð:

Snöggsjóðið spergilinn og blaðlauk í sjóðandi, söltu vatni í tvær mínútur eða þar til þetta er hæfilega mjúkt og látið vatnið renna af. Dreypið ólífuolíu í stóra pönnu, sem ekki festist við. Látið spergil og blaðlauk stikna í olíunni í nokkrum umferðum, hafið ekki meira í pönnunni en að grænmetið sé bara í einu lagi. Saltið og piprið og látið grænmetið taka smá lit allt um kring. Setjið grænmetið í skál og rífið helminginn af jurtunum yfir. Kreistið smá sítrónusafa yfir. Látið standa meðan þið steikið hörpudiskinn.

Hitið sömu pönnuna vel, ristið kross í hörpudiskinn öðru megin án þess að skera nema hálfa leiðina í gegnum hann, saltið og piprið báðar hliðarnar og stráið fimm-kryddinu yfir. Skvettið ólífuolíu í pönnuna og látið hörpudiskinn stikna í um tvær mínútur þar til hann er gullinn, snúið honum við, bætið afganginum af jurtunum í og látið stikna í mínútu í viðbót.

Meðan hörpudiskurinn er að stikna skiptið þá blaðlauknum og sperglinum milli fjögurra heitra diska. Takið pönnuna af hitanum og bætið 2 smjörklípum og safa úr ½ sítrónu í pönnuna. Látið þetta blandast vel á pönnunni og setjið síðan 3 hörpudiska og ögn af sósunni á hvern disk. Berið strax fram og takið til óspilltra málanna.

Tengdar færslur

thumbnail
hover

Sítrónufiskur fyrir 4

Fiskur og aftur fiskur, en aldrei eins. Hvorug þessi fullyrðing er sennilega rétt. En gott er að borða fisk oft í viku og fjölbreytil...

thumbnail
hover

Þorskur með mosarella og tómötum

Nú skellum við okkur í þorskinn í tilefni fiskveiðiáramótanna. Við höfum þetta bara einfalt og gott og njótum þess borða fersk...

thumbnail
hover

Fiskur og franskar á indverska vísu

Við förum núna í framandi útgáfu á fiski og frönskum. Leitum í indverska matargerð og teljum að íslenskur gæðafiskur henti afs...