Stærsta samfellda mælingasvæðið í einum leiðangri

Í leiðangri sem farinn var í júní kortlögðu leiðangursmenn á rannsóknaskipinu Árna Friðrikssyni alls 28.242 kmaf hafsbotni djúpt suður af landinu, í Íslandsdjúpi. Þetta er stærsta samfellda svæðið sem fram til þessa hefur verið mælt með fjölgeislamæli í einum og sama leiðangri í íslenskri efnahagslögsögu.

Hafsbotn þessa nýkannaða svæðis er að mestu þakinn seti sem safnast hefur þar fyrir með ýmsu móti í rás tímans. Fljótt á litið virðist stór hluti botnsins vera frekar sléttur og átakalítill en öldur, setstallar og miklir farvegir setja svip á stór svæði og stöku berggangar rísa upp úr setinu.

Samhliða fjölgeislamælingum voru gerðar jarðlagamælingar (setþykktarmælingar) sem sýna afstöðu setlaga nokkra tugi metra niður fyrir hafsbotninn.

Þekja fjölgeislamælinga í leiðangri A8-2018 í Íslandsdjúpi, 28.242 km2. Dýptarbil er frá 1.850 m (rautt) niður á um 2.800 m (blátt).

Þekja fjölgeislamælinga í leiðangri A8-2018 í Íslandsdjúpi, 28.242 km2. Dýptarbil er frá 1.850 m (rautt) niður á um 2.800 m (blátt).

Á austanverðu mælingasvæðinu kom fram meginfarvegur Íslandsdjúpsins, Maury farvegurinn, kenndur við bandaríska haffræðinginn og frumkvöðulinn Matthew Fontaine Maury (1806-1873). Í þessum meginfarvegi sameinast væntanlega margir farvegir sem ganga út frá rótum íslenskra landgrunnsins. Margir þeirra hafa verið kortlagðir í fyrri fjölgeislamælingum Hafrannsóknastofnunar sem hófust á Kötluhryggjum aldamótaárið 2000. Þar eru miklir farvegir eða gljúfur sem ganga út frá landgrunnsbrúninni, kennd við Reynisdjúp og Mýrdalsjökul. Mikið og fallegt kerfi farvega var einnig kortlagt á síðasta ári í landgrunnsrótum suðaustur af landinu.

Leiðangur Árna Friðrikssonar stóð yfir 4.-21. júní sl. og er sá fyrri sem farinn verður í sumar í átaksverkefni Hafrannsóknastofnunar um kortlagningu hafsbotnsins í efnahagslögsögu Íslands. Markmiðið er að afla þekkingar sem nýtast mun á ýmsan hátt og er forsenda frekari vísindarannsókna við nýtingu, vernd og rannsóknir auðlinda í hafinu, á hafsbotni og undir hafsbotni.

Skilyrði til mælinga nú voru lengst af mjög góð í Íslandsdjúpi en síðustu dagar leiðangursins voru nýttir til mælinga á 1.378 kmí Jökuldjúpi. Þar eru jökulmenjar áberandi en einnig aragrúi af holum (e. pockmarks) á mjúkum botni. Holurnar eru væntanlega til vitnis um einhvers konar uppstreymi úr setlögunum.

Heildarflatarmál fjölgeislamælinga, í þessum í leiðangri suður undir 200 mílna mörkum lögsögunnar og í Jökuldjúpi, var því 29.620 km2.

Leiðangursstjóri var Guðrún Helgadóttir og skipstjóri Ingvi Friðriksson.

 

Attachments

Tengdar færslur

thumbnail
hover

Gylfi hættir sem forstjóri Eimskips um...

Stjórn Eimskipafélags Íslands hf. og forstjóri félagsins Gylfi Sigfússon hafa komist að samkomulagi um að Gylfi láti af störfum se...

thumbnail
hover

Flytur erindi um plast í þorski...

Föstudaginn 23. nóvember kl. 11:00 mun Anne de Vries flytja erindi á málstofu Hafrannsóknastofnunar. Erindið mun fjalla um mælingar A...

thumbnail
hover

Samdráttur í útflutningi frá Færeyjum

Útflutningur sjávarafurða frá Færeyjum dróst saman á fyrstu níu mánuðum ársins um 15% í verðmæti og 8% í magni. Heildarverðm...