-->

Steikt hörpuskel með eplum og rúsínum í karrýsósu

Hörpuskelin er hollur og góður matur. Því miður hefur verið veiðibann á hörpuskel undanfarin tíu ár vegna sýkingar í stofninum á Breiðafirði. Þegar stofninn var heilbrigður gaf hann af sér um 8.500 tonn árlega. Við höfum því þurft að flytja skelina inn, eða öllu heldur vöðvann úr henni. Hann fáum við meðal annars frá Færeyjum, en skelin þar er sú sama og við Ísland. Stærri bitar eru hins vegar fluttir inn frá Bandaríkjunum. Vöðvinn er meðal annars fluttur inn og seldur undir vörumerkinu Sælkerafiskur. Okkur Helgu áskotnaðist uppskrifabók frá Sælkerafiski, en þar er að finna uppskriftir eftir matreiðslumanninn Ólaf Ágústsson, sem er liðsfélagi í landsliði íslenskra matreiðslumeistara. Þar er að finna eftirfarandi uppskrift frá Ólafi að hörpuskel eða tunnutappa eins og við köllum vöðvann stundum. Ekki kemur fram fyrir hve marga rétturinn er ætlaður en okkur finnst að fjórir bitar séu lágmark á mann. Þá er svo bara að fjölfalda innihaldið eftir fjölda þeirra sem verða í mat. Magnið fer reyndar líka eftir því hvort um er að ræða aðalrétt eða forrétt, en þessi réttur hentar vel í hvort tveggja.

Innihald:
4 stk stór hörpuskel
¼ rautt epli, skorið í grófa bita
2 msk rúsínur
1 pk gult karrýmauk (deSiam yellow curry paste)
1 dós kókosrjómi (deSiam Coconut cream)
1 límóna, safinn
2 msk chiliolía
Olía til steikingar
5 stk graslaukur, gróft saxaður
Salt
Aðferðin:
Byrjið á að hreinsa litla vöðvann frá hörpuskelinni. Gott er að þerra skelfiskinn áður en hann er settur á pönnuna til að fá fallega steikingu. Steikið hörpuskelina á snarpheitri pönnu og kryddið með salt. Brúnið karrýið létt í víðum potti ásamt eplunum og bætið kókosrjómanum út á. Hitið að suðu og kryddið til með límónusafa og salti. Lækkið undir þegar suðan kemur upp, bætið rúsínum út í og látið malla í 10 mínútur. Raðið upp á disk eða fat og skreytið með chiliolíunni og graslauknum.
Við Helga erum reyndar ekkert fyrir rúsínur í mat og eigi það við fleiri er gott að nota saxaðar döðlur í staðinn.  Sé uppskriftin stækkuð upp í aðalrétt er gott að hafa hrísgrjón sem meðlæti og gott brauð. Drykki velur hver fyrir sig.