-->

Steiktur fiskur í kókoskarrý

Enn er það ýsa fremur einfaldur og ódýr réttur, enda ýsan vinsælasti matfiskur okkar landsmanna. En hvað vitum við um ýsuna. Oft er þekkingin um fiskinn í sjónum af skornum skammti og það er svo sem allt í lagi að beðið sé um fiskinn með svörtu röndinni í fiskbúðinni. Það er kannski síður í lagi að fólk haldi að ýsan sé kona þorskins og eigi þau „börn“ saman. Þó bæði þorskur og ýsa teljist til þorskfiskaættar, eru þetta nokkuð ólíkir fiskar, ekki bara í útliti og eiga ekki „börn“ saman.

Svarti bletturinn undi eyruggunum og röndin eftir henni eldilangri, eru einkennandi fyrir ýsuna. „Einu sinni ætlaði djöfullinn að veiða fisk úr sjó. Hann þreifaði í sjónum og fann ýsu. Hann tók undir eyruggana og síðan þá hafa ýsur haft svarta bletti eftir fingraför djöfsa. Ýsan tók þá mikið viðbragð og rann úr klóm kölska og því eru svartar rákir eftir ýsum þar sem klær kölska strukust eftir báðum hliðum.“
Samkvæmt þjóðsögunni er þetta skýringin á rákinni á ýsunni, en í rauninni eru rákin og svarti bletturinn sértakt líffæri, sem hjálpar henni að skynja umhverfi sitt. „Með aðstoð rákarinnar skynja fiskarnir straumstefnu, bylgjustyrk og stefnu en hvorki þrýsting né dýpi. Þannig geta þeir sem lif í myrku umhverfi eða eru blindir, forðast aðra fiska og ýmsa hluti með aðstoð straumskynjunarinnar,“ segir meðal annars í bókinni Íslenskir fiskar. En nóg af því, snúum okkar að matreiðslunni, en við Helga fundum þessa á netinu eins og svo margar aðrar.

Innihald:

ýsu- eða þorskflök (ca 600-800 g)
2 dl hveiti
1 dl mjólk
1 tsk karrý
½ tsk timjan
1 egg
2 msk kókosmjöl
salt
pipar

Aðferð:

Öllum hráefnum, fyrir utan fiskinn, er hrært saman í skál. Fiskurinn er skorinn í bita og látinn liggja í blöndunni í 1-1½ klst. Steikið fiskinn á pönnu og berið hann fram með hrísgrjónum og karrýsósu. Eins og í öðrum uppskriftum er þessi fyrst og fremst tillaga að matseld. Vanti hráefni má hugsanlega sleppa því og ekkert mál er að þreifa sig áfram með önnur eða fleiri hráefni í uppskriftina. Til dæmis hefur það gefist mjög vel hjá okkur að blanda saman karrýsósu og Hollandssósu. Epli og ananas fara líka mjög vel með karrý. Þá er kannski rétt að minna á að gott er að skola hrísgrjónin vel úr köldu vatni áður en þau eru soðin til að minnka sterkjuna úr þeim. Þá sjóðum við grjónin þannig að setja í þau hæfilega mikið vatn þannig að fljóti yfir sentímetra eða svo og um leið og suðan kemur upp í pottinum, slökkvum við á hellunni en höfum pottinn áfram á henni. Þannig komum við í við fyrir að grjónin brenni við og þau verða alltaf hæfilega soðin og ekki klesst.
Verði ykkur að góðu.