-->

Steiktur saltfiskur að katalónskum hætti

Víða er hægt að fá saltfisk í matinn á Íslandi, enda hefur saltfiskur verið framleiddur hér öldum saman  til útflutnings og neyslu innanlands. Það er í raun fátt sem hægt er að hugsa sér betra en góðan saltfiskrétt, íslenskan saltfisk, eldaðan eftir uppskriftum frá Spáni, Portúgal eða Ítalíu.
Nú til dags er búið að einfalda matreiðsluna fyrir okkur. Við fáum úrvals saltfisk í neytendaumbúðum, útvatnaðan eftir því hvort hann er til suðu eða steikingar, og uppskriftir eru mjög víða í boði.
Eitt þeirra íslensku fyrirtækja sem bjóða upp á úrvals saltfisk, tilbúinn til matreiðslu, er Ektafiskur á Hauganesi við Eyjafjörð. Við leituðum þangað eftir uppskrift, en salfiskinn frá þeim má fá í flestum matvöruverslunum. Við mælum eindregið með honum. Þessi uppskrift er miðuð við sex manns.
Innihald:
1 – 1.2 kg. saltfiskur – hnakkastykki frá Ektafiski
1 dl. ólífuolía
1 stk. saxaður laukur
5 stk. hvítlauksgeirar, skornir í þunnar sneiðar
1 stk. rauð paprika, skorin í þunnar sneiðar
4 sneiðar af beikoni, skornar í ræmur
500 g. tómatar úr dós
5 g. rósmarin
1 dl. spænskt rauðvín
1 dl. fisksoð
100 möndlur (afhýddar)
svartur pipar úr kvörn
salt ef með þarf
Aðferð:
Skerið saltfiskinn í hæfilega stóra bita og veltið upp úr hveiti, steikið á vel heitri pönnu í 4-5 mín. eftir þykkt.
Kraumið laukinn, hvítlaukinn, paprikuna og beikonið í 10 mín. eða þangað til það er vel meyrt.
Bætið nú út í rósmarin og fláðum tómötum, kremjið tómatana vel í pottinum og látið sjóða vel saman.
Bætið í rauðvíni og fisksoði. Ristið möndlurnar á þurri pönnu eða í grilli, malið þær þvínæst í matvinnsluvél. Látið út í sósuna til þess að þykkja hana.
Berið fram með krydduðum hrísgrjónum.

 

Comments are closed.