-->

Þorláksmessuskata

Hefðin að að borða skötu á Þorláksmessu er í raun gömul og var á sínum tíma að miklu leyti einskorðuð við Vestfirði, því þar veiddist skatan helst á þessum tíma árs. Hefðin hefur nú breiðst út um land allt og á ekkert skylt við upprunann, það er að „éta lélegt fiskmeti á Þorláksmessu“. Þetta er eiginlega orðin félagsleg hefð þar sem fólk kemur saman á veitingastöðum til að borða skötu og fá sér kannski í aðra tána með.

Sumir vilja hins vegar elda sína skötu heima og það er auðvitað í góðu lagi þó lyktin geti orðið ansi mikil, sé skatan vel kæst. Til eru ýmis húsráð til að draga úr lyktinni önnur en að lofta vel út, enda skötulyktin ekki alveg sá jólailmur sem flestir kjósa. Auðvitað er hægt að sjóða skötuna úti í bílskúr eða á svölunum búi fólk við slíkar aðstæður.  Ein leið er að strá kanildufti á eldavélarhelluna eftir að skatan hefur verið soðin og slökkva síðan á henni. Kanilduftið brennur þá og gefur góðan ilm í húsið.
Á mörgum heimilum sjóða kokkarnir alltaf jólahangiketið strax á eftir skötunni og bæta þannig fyrir misgjörðir sínar. Sumir halda því fram að nægilegt sé að kveikja á mörgum kertum í eldhúsinu á meðan skatan sýður, aðrir skera niður lauk og hafa í vatni við hliðina á pottinum, eða í skötusoðinu og segja það engu breyta um bragðið, einhverjir brenna greni af miklum móð og loks eru þeir sem væta klút í ediki og leggja yfir skötupottinn þegar fer að sjóða. Undanfarin ár hafa fiskbúðir jafnvel selt lyktareyðandi efni á dósum og margir grípa slíka dós með sér um leið og þeir kaupa kæsta skötuna.
Einhver þessara ráða, eða jafnvel öll, ættu að duga, a.m.k. ætti sérstakur ilmur skötunnar ekki að fæla neinn frá eldamennskunni á Þorláksmessu.
Nú til dags er bæði hægt að verða sér úti um skötu eða tindabikkju, ýmist bæði kæsta og saltaða eða aðeins kæsta og auðvita mismikið kæsta. Skötuna á að sjóða þar til hún losnar frá brjóski, sem tekur fáeinar mínútur, en hún á ekki að bullsjóða. Oftast nær er hún borin fram með soðnum kartöflum, rófum og tólg eða hamsatólg en fyrir hörðustu aðdáendur skötunnar er vestfirskur hnoðmör ómissandi. Það er Helga sem sér um skötuna á okkar heimili enda fyrrverandi fiskverkandi. Hún vill hafa skötuna vel kæsta og saltaða svo maður hósti svolítið við að borða hana, og snarpheita hamsatólg notar hún með. Rúgbrauð og smér, karöflur og rófur fullkomna máltíðina fyrir hana, en Hirtinum finnst fullkomnun ekki náð fyrr en með öli og snafsi.
En fleiri leiðir eru til að elda skötuna og raunar er fersk tindabikkja einnig herramanns matur. Við fundum tvær uppskriftir að skötustöppu á Netinu og látum þær fylgja með:
Vestfirsk skötustappa
800 g skata, vel kæst
300 g hnoðmör, vestfirskur
salt
Matreiðsla
Sjóðið skötuna. Hreinsið brjósk og roð af skötunni. Stappið vel saman við hana hnoðmör og saltið eins og þurfa þykir. Berið stöppuna fram heita með kartöflum og rúgbrauði. Einnig má láta stöppuna kólna í formi, skera hana í sneiðar og hafa hana með brauði. Í staðinn fyrir hnoðmör má nota tólg eða súrt smjör.

Nýrri tíma skötustappa

600 g skata, kæst eða söltuð
300 g kartöflur, soðnar og flysjaðar
150 g smjör
3 stk hvítlauksrif, má sleppa
pipar, nýmalaður hvítur
salt
steinselja
Matreiðsla
Sjóðið skötuna og kartöflurnar og saxið niður hvítlauksrifin. Búið til mauk úr skötu og kartöflum. Hrærið mjúkt smjörið saman við ásamt hvítlauknum. Bragðbætið með salti og pipar. Setjið stöppuna á fat eða disk. Skreytið með steinselju. Berið skötustöppuna fram með brauði og smjöri.