Þorskurinn feitur og stór

Frystitogarinn Vigri RE kom til hafnar í Reykjavík sl. sunnudagskvöld eftir mjög góða veiðiferð í rússnesku lögsöguna í Barentshafi. Aflinn upp úr sjó eftir 23 daga á veiðum var 1.210 tonn eða tæp 53 tonn að jafnaði á sólarhring.

,,Ég held að þetta sé mettúr hjá okkur á Vigra. Vinnslan var nánast á fullu hjá okkur þá daga sem við vorum að veiðum og þegar best lét afkastaði hún 70 til 80 tonnum á sólarhring,“ segir Árni Gunnólfsson, skipstjóri, í samtali á heimasíðu HB Granda. Hann hefur mikla reynslu af veiðum í hvort tveggja norskri og rússneskri lögsögu í Barentshafi.

,,Þetta er fimmtánda árið mitt í Barentshafi og aflabrögðin nú eru með þeim bestu sem ég man eftir. Það þykir gott að komast yfir þúsund tonnin í túrnum og ekki síst á jafn fáum veiðidögum og raun ber vitni. Við vorum mest að veiðum á svokölluðum Gilden banka, norður af Múrmansk, en þar voru öll íslensku skipin að veiðum. Samvinnan var til fyrirmyndar og skýrir árangurinn að einhverju leyti.“

Aukaafli með þorskinum er alltaf einhver en ýsa er eina tegundin sem er kvótasett í rússnesku lögsögunni, auk þorsksins.

,,Það er alltaf töluvert um skrápflúru og tindabikkju og að þessu sinni vorum við einnig með 45 til 50 tonn af ufsa sem aukaafla. Fiskurinn er vel haldinn og þorskurinn var feitur og stór. Það var blíðuveður á miðunum allan tímann en við hrepptum mótvind á leiðinni frá Íslandi auk þess sem straumar voru okkur óhagstæðir. Við vorum því sex daga á leiðinni á miðin og fimm daga heim, þannig að það fóru 11 sólarhringar í siglingar fram og til baka,“ segir Árni Gunnólfsson.

Tengdar færslur

thumbnail
hover

Sjávarútvegsskólinn blómstrar

Árið 2013 stofnaði Síldarvinnslan Sjávarútvegsskóla Síldarvinnslunnar og hófst kennsla þá um sumarið. Skólinn var ætlaður nem...

thumbnail
hover

HB Grandi semur við ÚR um...

HB Grandi hf. hefur gert Útgerðarfélagi Reykjavíkur hf. tilboð um kaup á öllu hlutafé í sölufélögum í Japan, Hong Kong og á me...

thumbnail
hover

Lítill fiskafli í júní

Landaður afli íslenskra fiskiskipa í júní var 31,7 þúsund tonn sem er 33% minni afli en í júní í fyrra. Samdráttinn má að mest...