Umfangsmiklar loðnurannsóknir að hefjast

Á næstu dögum fara rannsóknarskip Hafrannsóknastofnunar í einn umfangsmesta loðnuleiðangur síðari ára. Þá verður í fyrsta sinn farið til loðnuleitar í samstarfi við Grænlendinga. Markmiðið er meðal annars að átta sig betur á orsökum þeirra miklu breytinga sem orðið hafa á loðnunni og útbreiðslu hennar undanfarin ár samkvæmt frétt á ruv.is.

Bæði rannsóknarskip Hafrannsóknastofnunar, Árni Friðriksson og Bjarni Sæmundsson, taka þátt í þessum leiðangri sem hefst á fimmtudag, ásamt norsku skipi sem fjármagnað er af systurstofnun Hafró á Grænlandi.

Talsvert meiri rannsóknir en undanfarin haust 

Leiðangurinn verður talsvert umfangsmeiri en hefðbundnir loðnuleiðangrar að hausti síðustu ára. Auk vöktunar og mælinga á loðnustofninum til að meta hrygningastofn næstu loðnuvertíðar og magn af yngri loðnu, verða nú töluverðar viðbætur, að sögn Þorsteins Sigurðssonar, sviðsstjóra á sviði uppsjávarlífríkis hjá Hafrannsóknastofnun.

Telja og merkja hvali og fylgjast með fuglalífi

„Við verðum með ítarlegar hvalatalningar, við fylgjumst með fuglum, við verðum með rannsóknir á fæðusamspili loðnunnar við afræningja, við vonumst til að geta merkt nokkra hnúfubaka, við fylgjumst með lifrum. Þannig að það eru ýmis verkefni sem við erum að sinna umfram það sem við höfum getað gert á undanförnum árum,“ segir hann.

Vilja átta sig betur á orsökum breytinga hjá loðnunni 

Allt er þetta gert, segir Þorsteinn, til að geta áttað sig betur á orsökum þeirra breytinga sem hafa orðið á loðnunni og útbeiðslu hennar og til að skilja vistkerfið betur. Og það verður farið yfir stórt hafsvæði, langt norður fyrir Jan Mayen og hafsvæðið milli Íslands og Jan Mayen, auk þess stórt svæði við Austur-Grænland.

Samstarfið við Grænland stækki verkefnið verulega

„Það má segja að við höfum sem betur fer getað verið með fleiri daga okkar rannsóknarskipa núna á síðustu árum,“ segir Þorsteinn. „En síðan er það viðbótin sem kemur í raun frá systurstofnun okkar í Grænlandi sem gerir það að verkum að við getum núna bæði náð utan um megin verkefnið, sem er vöktunin, en bætt á það öðrum verkefnum sem við ella hefðum ekki getað gert.“

 

Tengdar færslur

thumbnail
hover

Gylfi hættir sem forstjóri Eimskips um...

Stjórn Eimskipafélags Íslands hf. og forstjóri félagsins Gylfi Sigfússon hafa komist að samkomulagi um að Gylfi láti af störfum se...

thumbnail
hover

Flytur erindi um plast í þorski...

Föstudaginn 23. nóvember kl. 11:00 mun Anne de Vries flytja erindi á málstofu Hafrannsóknastofnunar. Erindið mun fjalla um mælingar A...

thumbnail
hover

Samdráttur í útflutningi frá Færeyjum

Útflutningur sjávarafurða frá Færeyjum dróst saman á fyrstu níu mánuðum ársins um 15% í verðmæti og 8% í magni. Heildarverðm...