Útgerðarfyrirtækin ráða of miklu

Hólmfríður Svava Einarsdóttir er maður vikunnar að þessu sinni á Kvótanum. Hún er Stöðfirðingur en vinnur sem verkstjóri hjá Ísfiski í Kópavogi. Fyrirtækið er að hefja flutning starfsemi sinnar upp á Akranes, þar sem það hefur keypt vinnsluhúsnæði HB Granda. Hólmfríður hefur mikinn áhuga á íþróttum og finnst soðin ýsa með smjöri og nýjum kartöflum afar góð.

Nafn?

Hólmfríður Svava Einarsdóttir.

Hvaðan ertu?

Stöðvarfirði.

Fjölskylduhagir?

Gift Stefáni Ólafssyni frá Stöðvarfirði. Við eigum tvo uppkomna syni. Þeir eiga báðir konu og tvö börn og báðir með barn á leiðinni í sumar. Þannig að eftir sumarið á ég 6 barnabörn.

Hvar starfar þú núna?

Ég er verkstjóri hjá Ísfiski í Kópavogi.

Hvenær hófst þú vinnu við sjávarútveg?

Mig minnir að fyrsta sumarið hafi verið þegar ég var 12 ára. Þá var það við að spyrða fisk og hengja upp.

Hvað er það skemmtilegasta við að vinna við íslenskan sjávarútveg?

Mér finnst þetta eiginlega bara allt skemmtilegt. Starfið er ágætlega fjölbreytt og svo vinn ég með skemmtilegu fólki.

En það erfiðasta?

Of mikill yfirgangur í útgerðarfyrirtækjunum. Þeir ráða of miklu í þjóðfélaginu. Það er alltof lítið hlustað á fyrirtæki sem kaupa fisk á markaði. Þeir sem stjórna sjávarútveginum mættu kynna sér betur þessi fyrirtæki.

Hvað er það skrýtnasta sem þú hefur lent í í störfum þínum?

Það er svosem ekkert eitthvað skrýtið.

Hver eftirminnilegasti vinnufélagi þinn?

Ég hef átt marga góða vinnufélaga. Ég kynntist mörgu góðu fólki hjá ÚA þegar ég vann þar. Eftirminnilegust er Hrefna vinkona mín. Hörkudugleg.

Hver eru áhugamál þín?

Fyrir utan fjölskylduna þá eru það allar íþróttir. Ég hef alltaf stundað íþróttir og hef gaman af því að horfa líka. Fótbolti er í miklu uppáhaldi. Áfram Liverpool.

Hver er uppáhaldsmaturinn þinn?

Soðin ýsa með nýjum kartöflum og smjöri.

Hvert færir þú í draumfríið?

Eitthvað í sólina. Svo elska ég að slaka á í sveitinni okkar fyrir austan.

 

Tengdar færslur

thumbnail
hover

Mikil veiði og samfelld vinnsla

Það er áframhald á góðri kolmunnaveiði í færeysku lögsögunni og þessa dagana er samfelld vinnsla í fiskimjölsverksmiðjum Síl...

thumbnail
hover

Steig út í óvissuna

Hún flutti úr miðbæ Reykjavíkur vestur á Firði og tók við starfi sem gæðastjóri hjá HG í Hnífsdal. Hún sér ekki eftir því...

thumbnail
hover

Minna flutt utan frá Færeyjum

Útflutningur sjávarafurða frá Færeyjum dróst töluvert saman á fyrstu tveimur mánuðum ársins, borið saman við sömu mánuði í ...